Erlent

Danir kynna enn harðari aðgerðir

Kjartan Kjartansson skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. EPA/LUDOVIC MARIN

Samkomur fleiri en tíu manneskja verða bannaðar og alls kyns staðir og fyrirtæki þar sem fólk safnast saman þurfa að loka tímabundið samkvæmt nýjum aðgerðum til að hefta útbreiðslu kórónveirunnar sem Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti um í kvöld. Bannið tekur gildi klukkan tíu að dönskum tíma í fyrramálið, klukkan níu að íslenskum tíma.

Danska ríkisútvarpið segir að samkomubannið gildi um samkomur jafnt innan- sem utandyra til 30. mars. Matvöruverslanir og apótek verða áfram opin en reglur um starfsemi verslana verða einnig hertar til að tryggja að viðskiptavinir séu ekki í of miklu návígi. Viðskiptavinir þurfa einnig að geta þvegið sér um hendur og sprittað sig í búðunum.

Bannið nær til veitingastaða, kaffihúsa, verslunarmiðstöðva, hárgreiðslustofa, sólbaðsstofa og íþróttamiðstöðva, þar á meðal líkamsræktarstöðva. Skemmtistaðir og knæpur þurfa einnig að loka dyrum sínum.

Frederiksen hvatti landsmenn til að grípa til aðgerða heima fyrir..

„Þetta er ekki tíminn til að bjóða í afmæli eða að safna mörgu fólki saman,“ sagði hún á fréttamannafundi.

Margrét Þórhildur Danadrottning ætlar að ávarpa þjóðina klukkan 19:00 að íslenskum tíma. Danskur þjóðhöfðingi hefur ekki flutt slíkt ávarp frá því að afi drottningar gerði það við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×