Erlent

Bólu­efnið kom í lög­reglu­fylgd til Dan­merkur: „Til hamingju við öll“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Dreifing á bólu­efni Pfizer er hafin innan Evrópu­sam­bandsins.
Dreifing á bólu­efni Pfizer er hafin innan Evrópu­sam­bandsins. Pfizer

Klukkan 05:58 í morgun komu fyrstu skammtarnir af bóluefni gegn covid-19 í hús til dönsku sóttvarnastofnunarinnar Statens Serum Institut (SSI) á Amager í Kaupmannahöfn. Eftir að hafa verið flutt yfir landamærin til Danmerkur í lögreglufylgd verður bóluefninu nú dreift milli landshluta. Stefnt er að því að bólusetning hefjist í fyrramálið klukkan níu.

Danskir fjölmiðlar birtu í morgun myndskeið af því þegar flutningabíll í lögreglufylgd ók í hlað í Kaupmannahöfn. „Eftir mánaða bið geta fyrstu Danirnir nú séð fram á að vera bólusettir gegn kórónuveriunni,“ segir í frétt TV 2.

„Mér finnst við mega segja til hamingju við öll. Þetta er stór dagur. Við erum mjög spennt og glöð,“ er haft eftir Anne Marie Vangsted, forstjóra Testcenter Danmark, stofnunarinnar sem annast hefur skimun fyrir covid-19 í Danmörku.

Fyrsta sendingin til Danmerkur samanstendur af 9750 skömmtum af bóluefni frá Pfizer-BioNtech sem framleitt var í belgíska bænum Puurs. Bóluefnið var flutt með lögreglufylgd alla leiðina frá því komið var yfir landamærin og þar til það var komið inn um hliðið við húsakynni SSI á Amager. Þaðan verður efninu deilt niður til fimm sveitarfélaga.

Fyrstu Danirnir til að verða bólusettir verður eldra fólk og þeir sem útsettir eru fyrir veirunni á hjúkrunarheimilum í fimm bæjum Danmerkur þar sem mikið hefur verið um smit. Þá verður útvalið heilbrigðisstarfsfólk meðal hinna fyrstu til að fá bóluefni.

„Þetta er virkilega, virkilega yndislegt, að nú getum við fljótlega beitt viðspyrnu gegn kórónuveirunni með því að meðhöndla hana með virkum hætti, með því að búa til ónæmi svo maður verði ekki veikur,“ segir Henrik Ullum, forstjóri SSI.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×