Erlent

Danska þjóðkirkjan leggur til að jólamessu verði aflýst

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Kirkja heilags Knúts í Óðinsvéum.
Kirkja heilags Knúts í Óðinsvéum. EPA/Mikkel Berg Pedersen

Danska þjóðkirkjan hvatti til þess fyrr í kvöld, kvöldið fyrir aðfangadag, að öllum jólaguðsþjónustum fram til 3. janúar verði aflýst. Þetta þýðir að þjóðkirkjan mælist til þess að engar jólamessur fari fram á aðfangadag. Joy Mogensen, menningarmálaráðherra Danmerkur, styður þau tilmæli biskupsumdæma landsins, sem þjóðkirkjan tekur undir, um að rétt sé að aflýsa jólamessum.

„Við teljum það ekki lengur vera forsvaranlegt,“ segir Marianne Gaarden, biskup í Lolland-Falster biskupsdæmi við TV 2 en hún fundaði í kvöld með öðrum biskupum landsins. Félög prófasta og presta auk landssambands sóknarráða styðja ákvörðunina og mæla með því að guðsþjónusta verði felld niður til 3. janúar, sem er sami dagur og tímabundnar ráðstafanir sem gripið var til fyrir jólin vegna kórónuveirufaraldursins, eiga að óbreyttu að renna úr gildi.

Skömmu áður en gerð var grein fyrir tilmælunum um að aflýsa skyldi öllum jólamessum höfðu heilbrigðisyfirvöld gefið út strangar leiðbeiningar um skilyrði sem þyrfti að uppfylla til að halda mætti guðsþjónustu nú á tímum heimsfaraldurs.

Nú mæla yfirvöld meðal annars með því að guðsþjónusta vari að hámarki í 30 mínútur og að enginn söngur fari fram að því er segir í tilkynningu á heimasíðu kirkjumálaráðuneytisins. Þetta eru að sögn Marianne Gaarden tilmæli sem erfitt er að fylgja.

„Þess vegna leggjum við til að allri jólaguðsþjónustu verði aflýst. Við metum það sem svo að nú sé of seint að gera breytingar á öllu skipulagi guðsþjónustu,“ segir hún. Hún telur að leiðbeiningar ráðuneytisins hafi borist allt of seint til að unnt sé að bregðast við og því sé ekki forsvaranlegt að halda messur.

„Það er með sorg í hjarta sem við mælum með þessu, vegna þess að við viljum dreifa ljósi á þessum dimmu tímum. En nú er mælikvarðinn hvað varðar leiðbeiningar svo hár að við erum hrædd um að við náum ekki að uppfylla þau skilyrði sem eru sett,“ segir Gaarden.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×