Enski boltinn

Roy Keane elskar að horfa á Leeds

Anton Ingi Leifsson skrifar
Roy Keane er hrifinn af því hvernig Leeds er að spila.
Roy Keane er hrifinn af því hvernig Leeds er að spila. Getty/Chris Brunskill/Nick Potts

Roy Keane, sparkspekingur Sky Sports og fyrrum leikmaður Manchester United, er hrifinn af leikstíl Marcelo Bielsa hjá Leeds. Þetta sagði harðjaxlinn á Sky Sports eftir leik United og Leeds í gær.

Leeds fékk kennslustund á Old Trafford í gær er þeir töpuðu 6-2 fyrir erkifjendum sínum í Man. United. Þetta var í fyrsta skipti í sextán ár sem liðin mætast í deild þeirra bestu á Englandi.

Eftir leikinn greindu þeir Roy Keane og Jimmy Floyd Hasselbaink leikinn hjá Sky Sports sjónvarpsstöðinni. Írinn var spurður hvernig honum finndist fótbolti Marcelo Bielsa, stjóra Leeds.

„Ég elska þetta. Mér finnst þetta frábært. Íþróttir eiga að vera skemmtun og þeir buðu upp á skemmtun í dag,“ sagði Keane.

„Þeir fengu kennslustund í dag en United er gott lið. Heilt yfir þá er trúin hans Bielsa sem gerir hann að svo frábærum þjálfara. Allir topp þjálfararnir í dag eru þrjóskir en ég held að þeir haldi sér uppi.“

„Ég held að Leeds verði í fínum málum. Við njótum þess að horfa á þá. Þeir vilja ekki fá á sig sex mörk, augljóslega, en mér finnst árangur þeirra hingað til hafa verið frábær.“

Leeds er í fjórtánda sætinu með sautján stig. Þeir eru sjö stigum frá fallsæti en hinir nýliðarnir, Fulham [sautjánda sæti með tíu stig] og WBA [nítjánda sæti með sjö stig] eru í meiri fallbaráttu.

„Þú horfir á hina nýliðana og þau myndu gera allt til að skipta um sæti við Leeds.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×