Erlent

Neyðarleyfi í höfn hjá Moderna

Sylvía Hall skrifar
Bóluefni Moderna er komið með neyðarleyfið.
Bóluefni Moderna er komið með neyðarleyfið. Getty

Bandaríska lyfjaeftirlitið hefur veitt bóluefni Moderna neyðarleyfi í kjölfar einróma niðurstöðu ráðgjafaráðs stofnunarinnar um að mæla með veitingu leyfisins. Yfirvöld hafa gert samninga um kaup á 200 milljónum skammta frá fyrirtækinu.

Sex milljónir skammta eru sagðir tilbúnir til dreifingar, en þetta er annað bóluefnið á viku sem hlýtur náð fyrir augum stofnunarinnar. Um það bil vika er síðan bóluefni Pfizer fékk neyðarleyfi og hófst dreifing á því síðustu helgi.

Um er að ræða stærsta bólusetningarátak í sögu Bandaríkjanna, en landið hefur farið hvað verst út úr kórónuveirufaraldrinum. Hvergi hafa fleiri látið lífið og smitum fer ört fjölgandi.

Stephen Hahn hjá Lyfjaeftirliti Bandaríkjanna sagði neyðarleyfi Moderna marka annað mikilvægt skref í baráttunni við heimsfaraldurinn. Nú þegar hefði hann valdið miklum skaða sem sýndi sig best í fjölda andláta og sjúkrahúsinnlagna.

Niðurstöður prófana á bóluefni Moderna benda til 94 prósenta virkni og fundust engar vísbendingar um ónæmisviðbrögð. Aðeins fleiri fengu meiri aukaverkanir eins og útbrot og kláða, en álit ráðsins var þó einróma og allir tuttugu meðlimir þess sammála.


Tengdar fréttir

Flýta mati á bóluefni Moderna um viku

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) mun flýta mati á bóluefni frá Moderna . Fundurinn, sem áður átti að halda 12. janúar, fer fram 6. janúar í staðinn. Reynt verður að ljúka mati á bóluefninu á fundinum og þegar það liggur fyrir mun framkvæmdastjórn Evrópusambandsins reyna að gefa út markaðsleyfi á fáeinum dögum.

Bóluefni Moderna fær neyðarleyfi

Ráðgjafaráð Lyfjaeftirlits Bandaríkjanna, FDA, hefur lagt til að bóluefni lyfjafyrirtækisins Moderna fái neyðarleyfi stofnunarinnar. Þannig verði hægt að taka bóluefnið í almenna notkun. Búist er við því að stofnunin fylgi ráðleggingum ráðsins fljótt og veiti bóluefninu blessun sína.

Fyrstu bílar með bóluefni farnir af stað

Fyrstu flutningabílarnir sem flytja bóluefni um Bandaríkin voru sendir af stað frá verksmiðju Pfizer í borginni Portage í Michigan-ríki í dag. Brottför vörubílanna er sögð marka upphaf að umfangsmestu bólusetningu í sögu Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×