Enski boltinn

Khedira hefur verið í sambandi við stjóra Gylfa

Anton Ingi Leifsson skrifar
Khedira æfir mikið en spilar lítið hjá Juventus.
Khedira æfir mikið en spilar lítið hjá Juventus. Daniele Badolato/Getty

Sami Khedira, fyrrum heimsmeistari og nú leikmaður Juventus, segir að hann hafi átt samtöl við Carlo Ancelotti, stjóra Gylfa Þórs Sigurðssonar og félaga í Everton.

Khedira er aftarlega í goggunarröð Andrea Pirlo sem tók við Juventus í sumar. Nú ganga sögusagnir um að sá þýski gæti fengið samningi sínum rift í janúar og hann er sagður byrja leita annað.

Khedira er sagður eiga gott samband við bæði Jose Mourinho hjá Tottenham og Carlo Ancelotti hjá Everton. Hann segist nú þegar hafa rætt við Ancelotti.

„Ég er opin fyrir nýrri áskorun. Ég hef átt erfiða tíma og ég vil spila fótbolta aftur og berjast fyrir þremur stigum í hverri viku. Ég þrái það,“ sagði Khedira við Bild.

Khedira sagði að Ancelotti og hann hefðu rætt saman í gegnum síma sem og skrifað saman. Hinn 33 ára gamli lokar þó ekki á það að snúa aftur heim í Bundesliguna.

„Stuttgart er komið aftur í úrvalsdeildina og ég get ekki útilokað að snúa þangað aftur. Stuttgart er á góðri og spennandi vegferð,“ sagði Khedira.

Khedira er miðjumaður eins og Gylfi Sigurðsson en Gylfi átti frábæran leik um helgina. Hann skoraði eina mark liðsins í 1-0 sigri á Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×