Enski boltinn

Salah búinn að ná Cristiano Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah heilsar Cristiano Ronaldo fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar þegar Ronaldo lék enn með Real Madrid.
Mohamed Salah heilsar Cristiano Ronaldo fyrir úrslitaleik Meistaradeildarinnar þegar Ronaldo lék enn með Real Madrid. Getty/Matthew Ashton

Mohamed Salah skoraði fyrsta mark Liverpool í 4-0 sigrinum á Úlfunum í ensku úrvalsdeildinni í gær og er þar með búinn að skora 84 mörk í ensku úrvalsdeildinni.

Mohamed Salah er nú búinn að skora jafnmörg mörk og Cristiano Ronaldo gerði fyrir Manchester United á sínum tíma.

Salah skoraði 84. markið í gær í sínum 131. leik en hann var 65 leikjum á undan Ronaldo að skora sín 84 mörk. Cristiano Ronaldo lék 196 deildarleiki fyrir Manchester United á árunum 2003 til 2009.

Salah kom til Liverpool frá Roma sumarið 2017 og hefur síðan tvisvar fengið gullskóinn sem markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar (2017/18 og 2018/19). Salah hafði áður skoraði 2 mörk í 13 deildarleikjum með Chelsea frá 2013 til 2014.

Mo Salah lagði einnig upp mark Joel Matip í leiknum á móti Úlfunum og er því einnig kominn með 31 stoðsendingu í ensku úrvalsdeildinni. Salah hefur því komið með beinum hætti að 115 mörkum í deildinni.

Salah nálgast nú einnig Afríkumet Didier Drogba. Drogba er sá afríski knattspyrnumaður sem hefur skorað mest í ensku úrvalsdeildinni eða alls 104 mörk. Það met fellur þó örugglega aldrei fyrr en á næsta tímabili í fyrsta lagi.

84 mörk Mohamed Salah í ensku úrvalsdeildinni

  • 69 með vinstri fæti
  • 11 með hægri fæti
  • 4 með skalla
  • 11 úr vítaspyrnum
  • 0 úr aukaspyrnum
  • 0,64 mörk í leik
  • 31 stoðsending

84 mörk Cristiano Ronaldo í ensku úrvalsdeildinni

  • 9 með vinstri fæti
  • 47 með hægri fæti
  • 9 með skalla
  • 11 úr vítaspyrnum
  • 9 úr aukaspyrnum
  • 0,43 mörk í leik
  • 34 stoðsendingar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×