Erlent

Mette boðar lokanir í Danmörku í jólalegu ávarpi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mette Frederiksen forsætisráðherra segir að fólk verði að takmarka hverja það hitti á næstunni. 
Mette Frederiksen forsætisráðherra segir að fólk verði að takmarka hverja það hitti á næstunni.  EPA

Ríkisstjórn Danmerkur hefur boðað til blaðamannafundar í fyrramálið þar sem tilkynna á nýjar aðgerðir í stórum hluta landsins til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta kom fram í ávarpi Mette Frederiksen forsætisráðherra sem hún birti á Facebook í kvöld.

„Þetta er markviss landfræðileg lokun að hluta í Árósum, Óðinsvéum, Kaupmannahöfn og nokkrum samfélögum á Sjálandi og í nágrenni höfuðborgarinnar þar sem smit er hvað mest,“ sagði Mette í ávarpi sínu.

„Við verðum að ná betri tökum á veirunni fyrir aðfangadagskvöld. Það mun mæða mikið á okkur öllum.“

Aðferðarfræðin hjá Dönum sé sú sama og áður. Grípa þurfi inn í fjölgun smita snemma til að koma í veg fyrir að þurfa að grípa til enn harðari aðgerðir einn daginn, sem gæti reynst of seint. Mette nefndi engar tölur í ávarpi sínu eða nánari upplýsingar um útfærsluna en sagðist vonast til að sem flestir horfðu á fundinn á morgun.

Ávarp Mette, sem var í jólalegri kantinum enda annar sunnudagur í aðventu, má sjá að neðan.

Ríkisstjórnin hefur fundað með öðrum flokkum um helgina vegna aðgerðanna sem fram undan eru. Ekki kom fram í ávarpi Mette nákvæmlega klukkan hvað blaðamannafundurinn yrði á morgun.

2116 greindust smitaðir með Covid-19 í Danmörku í gær sem er hæsti fjöldi smitaðra undanfarna mánuði. 885 hafa látist af völdum veirunnar þar í landi.

Samkomubann miðast við tíu manns í Danmörku sem stendur. Ekki má selja áfengi eftir klukkan tíu á kvöldin. Þá þarf fólk að notast við grímur í verslunum og í sumum menntastofnunum. 

Nánar má lesa um núverandi aðgerðir í Danmörku hér en þær verða sem fyrr segir hertar enn frekar á morgun.


Tengdar fréttir

Annar met­dagur í Dan­mörku

Alls greindist 1.191 með kórónuveiruna í Danmörku í gær og er um að ræða mesta fjöldann í landinu á einum og sama deginum frá upphafi faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×