Erlent

Tegnell biðst af­sökunar á „ó­heppi­legum“ um­mælum um inn­flytj­endur og Co­vid

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar.
Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar. Claudio Bresciani/EPA

Anders Tegnell sóttvarnalæknir Svíþjóðar baðst í dag afsökunar á orðum sínum um innflytjendur og tengsl þeirra við dreifingu kórónuveirunnar Í Svíþjóð. Tegnell segir orðalagið, sem hann notaði í sjónvarpsþætti á SVT í gærkvöldi, hafa verið „óheppilegt“.

Tegnell var gestur umræðuþáttarins Aktuellt á SVT í gær og ræddi þar háa dánartíðni af völdum veirunnar í Svíþjóð miðað við hin Norðurlöndin. Þar sagði hann að Noregur og Finnland væru óvenjuleg á evrópskan mælikvarða í þessu samhengi. Ríkin séu tiltölulega fámenn og þar sé nokkuð dreifbýlt.

Þá sagði Tegnell að í Noregi og Finnlandi væru „litlir hópar innflytjenda“ en innflytjendur hefðu verið „mjög virkir“ í mörgum löndum. 

Margir hafa skilið þessi ummæli á þann veg að Tegnell hefði ýjað að því að innflytjendur bæru mikla ábyrgð á dreifingu veirunnar í Svíþjóð og öðrum Evrópulöndum, hvar slíkir samfélagshópar eru fjölmennari en í Finnlandi og Noregi.

Tegnell segir í samtali við Aftonbladet í dag að orðalagið hafi verið „óheppilegt“. Það hefði ekki verið ætlunin að halda því fram að innflytjendur beri uppi dreifingu veirunnar.

„Ég hef ætíð haldið því skýrt fram að sú sé ekki raunin. Þvert á móti er þetta hópur sem hefur átt undir högg að sækja af völdum sýkingarinnar,“ segir Tegnell. Í því samhengi nefnir hann að í Svíþjóð búi fleiri af erlendum uppruna en í nágrannalöndunum. Því miður sé það svo að veiran hafi komið verr niður á þessum hópi en Svíum sem ekki eiga rætur að rekja til útlanda.

Sænsk yfirvöld hafa legið undir gagnrýni fyrir viðbrögð sín við faraldrinum. Þau gripu til vægari sóttvarnaaðgerða en flest önnur Evrópuríki. Tala látinna í Svíþjóð er nú rúmlega sjö þúsund manns, mun hærri miðað við höfðatölu en í nágrannalöndunum Noregi, Danmörku og Finnlandi. Það er þó nokkru lægra hlutfall en í stóru Evrópulöndunum þar sem ástandið hefur verið verst.


Tengdar fréttir

Svíar búast við hámarki bylgjunnar í desember

Sóttvarnayfirvöld í Svíþjóð segjast búast við því að önnur bylgja kórónuveirufaraldursins sem nú geisar þar nái hámarki sínu um miðjan desember. Þróun faraldursins velti þó á því að almenningur fylgi sóttvarnatilmælum.

Svíar tak­marka sam­komur við átta manns

Sænsk stjórnvöld hafa boðað að frá og með 24. nóvember næstkomandi munu samkomutakmarkanir í landinu miða við átta manns. Að undanförnu hefur verið miðað við fimmtíu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.