Erlent

Faraldurinn nær nýjum hæðum í Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Bandarískir heilbrigðisstarfsmenn reyna endurlífgunartilraunir á sjúklingi. Þrátt fyrir að dánartíðni vegna Covid-19 hafi lækkað töluvert hafa sífellt fleiri dáið.
Bandarískir heilbrigðisstarfsmenn reyna endurlífgunartilraunir á sjúklingi. Þrátt fyrir að dánartíðni vegna Covid-19 hafi lækkað töluvert hafa sífellt fleiri dáið. AP/Jae C. Hong

Faraldur nýju kórónuveirunnar náði methæðum í Bandaríkjunum í gær. 3.150 manns dóu og samtals voru fleiri en hundrað þúsund manns á sjúkrahúsi vegna Covid-19. Rétt rúmlega 200 þúsund greindust smitaðir af Covid-19.

Þetta er samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum sem hefur haldið utan um opinberar tölur í Bandaríkjunum. Í heildina hafa 273.847 dáið vegna Covid-19 í Bandaríkjunum.

Þó tilfellum hafi fjölgað hratt í Bandaríkjunum á undanförnum vikum og mánuðum hefur dánartíðni vegna Covid-19 lækkað töluvert. New York Times vísar í tölur frá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) um að tíðnin hafi lækkað úr 6,7 prósentum í apríl í 1,9 prósent í september.

Þrátt fyrir það hefur dauðsföllum heilt yfir farið fjölgandi í Bandaríkjunum. Í gær gerðist það í fyrsta sinn að dauðsföll fóru yfir þrjú þúsund.

Robert Redfield, forstjóri CDC, varaði í gær við því að veturinn gæti orðið sá erfiðasti í lýðheilsusögu Bandaríkjanna og að dauðsföll vestanhafs vegna Covid-19 gætu náð 450 þúsundum í febrúar.

AP fréttaveitan sagði frá því í morgun að sjúkrahús víðsvegar um Bandaríkin reyni að fá hjúkrunarfræðinga og lækna sem sest hafa í helgan stein til að snúa aftur til starfa. Sömuleiðis hafi verið leitað til nema og starfsmema og boðið þeim mun hærri laun en eðlilegt teljist vegna mikillar manneklu.

Innlagnir í Bandaríkjunum vegna Covid-19 hafi tvöfaldast á undanförnum mánuði og að álag á heilbrigðisstarfsmenn hafi aukist samhliða því.

Ríkisstjórar í Wisconsin og Nebraska hafa fellt niður gjöld og annað til að gera hjúkrunarfræðingum auðveldara að snúa aftur til vinnu eftir að hafa sest í helgan stein. Þeir hjúkrunarfræðingar eru að miklu leyti að vinna störf sem setja þau ekki í návígi við sjúklinga með Covid-19 en létta þó undir með þeim hjúkrunarfræðingum sem gera það.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×