Erlent

Tíu hermenn til viðbótar reknir vegna stríðsglæpa í Afganistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Angus Campbell, æðsti herforingi ástralska hersins. Hann sagði frá því á dögunum að vísbendingar væru um einhverskonar hefð þar sem nýir sérsveitarmenn voru látnir skjóta óvopnaða fanga til bana í Afganistan.
Angus Campbell, æðsti herforingi ástralska hersins. Hann sagði frá því á dögunum að vísbendingar væru um einhverskonar hefð þar sem nýir sérsveitarmenn voru látnir skjóta óvopnaða fanga til bana í Afganistan. EPA/MICK TASIKAS

Forsvarsemnn herafla Ástralíu hafa rekið minnst tíu hermenn sem sagðir eru hafa orðið vitni að morðum á óvopnuðum föngum í Afganistan. Áður hefur verið lagt til að minnst 19 hermenn verði rannsakaðir og mögulega ákærðir fyrir stríðsglæpi.

Minnst tíu sérsveitarhermenn í Ástralíu hafa fengið reisupassann vegna mögulegra stríðsglæpa ástralskra hermanna í Afganistan og rannsóknar sem snýr að þeim. Þeir eru taldir hafa komið að eða orðið vitni af morðum annarra hermanna en eru ekki meðal þeirra 19 hermanna sem búið er að leggja til að verði rannsakaðir af Alríkislögreglu Ástralíu og mögulega ákærðir.

Samkvæmt heimildum ABC News í Ástralíu tilheyra allir mennirnir tíu Special Air Service deildum hers Ástralíu og kemur til greina að grípa til aðgerða gegn fleiri hermönnum.

Skýrsla um misferli sérsveitarmanna í stríðinu í Afganistan var nýverið gefin út og kom þar fram að trúverðugar vísbendingar hefðu fundist fyrir stríðsglæpum ástralskra hermanna þar í landi. Alls fundust vísbendingar um að 39 óvopnaðir fangar og borgarar hefðu verið myrtir af 19 hermönnum.

Skýrsluna má lesa hér.

Nýir hermenn voru meðal annars látnir skjóta fanga til bana og varð það einhvers konar hefð í sérsveitunum. Yfirmenn þeirra sögðu þeim að taka menn af lífi.

Sjá einnig: Ástralskir hermenn drápu almenna borgara í Afganistan

Hermennirnir tíu hafa tvær vikur til að bregðast við brottvísunum sínum og þar á meðal geta þeir krafist frests. Varnarmálaráðuneyti Ástralíu segist ekki ætla að opinbera um hvaða hermenn sé að ræða og segir að það sé mikilvægt að fylgja réttum ferlum í þessu máli.

Að öðru leyti ætlar ráðuneytið ekki að tjá sig, samkvæmt frétt ABC News.

Einn sérfræðingur sem rætt var við segir mikilvægt að breytingar verði gerðar á „eitraðri“ menningu SAS-sveitanna. Þegar Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hélt blaðamannafund í aðdraganda útgáfu skýrslunnar fyrr í mánuðinum hét hann því að skipa óháða nefnd sem ætti að vakta viðbrögð hersins við þessum vendingum.

Linda Reynolds, varnarmálaráðherra, sagði í síðustu viku að henni hefði verið líkamlega illt við að lesa skýrsluna.

Fyrr á þessu ári var sérsveitarmanni vikið úr hernum eftir að myndband af honum taka óvopnaða almennan borgara af lífi var birt í fréttum í Ástralíu. Myndbandið var frá 2012 og rannsakendur hersins höfðu áður komist að því að maðurinn hefði verið skotinn í sjálfsvörn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×