Erlent

Skaut óvopnaðan mann þrisvar sinnum og vísað úr hernum átta árum seinna

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn var óvopnaður og hlýddi tilæmlum þegar hann var skotinn þrisvar sinnum.
Maðurinn var óvopnaður og hlýddi tilæmlum þegar hann var skotinn þrisvar sinnum.

Stjórnendur hers Ástralíu hafa vikið sérsveitarmanni úr hernum og varnarmálaráðherra hefur vísað máli hans til lögreglu eftir að myndband af hermanninum skjóta óvopnaðan mann til bana í Afganistan var gert opinbert. Hermaðurinn gæti verið ákærður fyrir stríðsglæp.

Myndband úr hjálmi eins hermanns sýnir atvikið en það var sýnt í fréttaþættinum Four Corners í Ástralíu í vikunni og hefur það vakið mikla hneykslun. Varnarmálaráðuneytið hefur þó ekki útskýrt af hverju ekki var gripið til aðgerða fyrr og af hverju umræddur hermaður var í hernum þar til í vikunni.

Málið á rætur að rekja til ársins 2012 þegar sérsveitarmenn úr hinum áströlsku SAS-sérsveitum voru að leita sprengjugerðarmanns í þorpi í Oruzganhéraði. Á einum tímapunkti komu hermennirnir að manni út á akri og var hann að verjast hundi hermannanna sem hafði ráðist á hann.

Þegar hermennirnir kölluðu hundinn til þeirra, lagðist maðurinn niður og á myndbandinu virðist sem hann sé alfarið óvopnaður og hlýði hermönnunum.

„Viltu að ég felli þennan aumingja?“ spyr hermaðurinn er hann stendur yfir manninum. Hermaðurinn með myndavélina segist ekki viss. Hinn hermaðurinn kallar því á yfirmann þeirra. Svarið heyrist ekki en hermaðurinn skýtur óvopnaða manninn þrisvar sinnum.

Sögðu banaskotið sjálfsvörn

Maðurinn sem var skotinn, var 25 ára gamall og tveggja barna faðir. Þegar nágrannar hans kvörtuðu yfir því að hann hafði verið skotinn til bana leiddi rannsókn hersins í ljós að hermaðurinn hafi skotið manninn í sjálfsvörn.

Myndbandið sýnir svo sannarlega að svo var ekki.

Hér að neðan má sjá þátt Four Corners í heild sinni. Umrætt atvik er sýnt eftir 36 mínútur en atvikið gæti vakið óhug. Þátturinn byggir að miklu leyti á frásögn Braden Chapman, sem var áður í SAS, og heldur hann því fram að hermenn hafi reglulega skotið óvopnaða menn til bana og eyðilagt eigur þeirra.

Umfangsmikil og langvarandi rannsókn á meintum ódæðum ástralskra hermanna í Afganistan er að ljúka.

Í kjölfar sýningar þáttarins sendu forsvarsmenn hersins út yfirlýsingu og sagði að umræddum hermanni hafi verið vikið úr hernum. Ekki kom fram í tilkynningunni af hverju ekki var notast við myndbandið í upprunalegri rannsókn hersins.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×