Veður

Gul við­vörun á Vest­fjörðum vegna hvass­viðris og snjó­komu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svona lítur úrkomuspákort Veðurstofunnar út sem gildir núna klukkan níu fyrir hádegi.
Svona lítur úrkomuspákort Veðurstofunnar út sem gildir núna klukkan níu fyrir hádegi. Veðurstofa Íslands

Gul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum í dag vegna hvassviðris og slyddu eða snjókomu. Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að viðvörunin hafi tekið gildi klukkan þrjú í nótt og gildi til klukkan 15 í dag.

Spáð er norðaustan 13 til 20 metrum á sekúndu á Vestfjörðum, hvassast á fjallvegum, með snjókomu og skafrenningi. Varað er við takmörkuðu skyggni, erfiðum akstursskilyrðum á fjallvegum og því að færð gæti spillst.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að í dag verði nokkuð stíf norðlæg átt vestast á landinu en víðast hvar annars staðar á landinu fremur hæg austlæg eða breytileg átt.

„Rigning með köflum austanlands framan af degi en norðantil seinnipartinn og í kvöld. Skúrir á Vesturlandi en þurrt að kalla syðst.

Norðlægar áttir verða ráðandi um helgina með éljum um norðanvert landið og að bjart að mestu syðra, en þykknar upp með skúrum síðdegis á sunnudag,“ segir í hugleiðingunum.

Veðurhorfur á landinu:

Austlæg átt 5-13 m/s og rigning með köflum, en norðan 13-20 vestast og slydda eða snjókoma á Vestfjörðum. Yfirleitt þurrt sunnanlands. Norðan 8-15 í kvöld, með slydduéljum eða éljum um norðanvert landið en léttir til syðra.

Norðlæg eða breytileg átt, 8-15 á morgun, él norðantil en bjart með köflum um sunnanvert landið. Hiti 0 til 7 stig, hlýjast syðst.

Á laugardag:

Norðlæg átt, 5-13 m/s. Skýjað að mestu og þurrt, en dálítli él með norðurströndinnni. Hiti 0 til 4 stig og vægt frost inn til landsins.

Á sunnudag:

Norðaustan 5-13 m/s, en 10-15 á norðvestantil. Dálítil snjókoma á norðanverðu landinu en rigning með suðurströndinni, annars úrkomulítið. Hiti um og undir frostmarki.

Á mánudag:

Austan- og norðaustanátt, yfirleitt 10-15 m/s. Víða rigning um sunnanvert landið og hiti um eða yfir frostmarki, en snjókoma með köflum norðantil og frost 0 til 4 stig.

Á þriðjudag:

Norðanátt og víða snjókoma, en bjart með köflum sunnantil á landinu. Frost 0 til 5 stig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×