Erlent

Eitt prósent Ítala með Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Samtök lækna hafa kallað eftir því að gripið verði til harðra sóttvarnaraðgerða, því annars muni heilbrigðiskerfið láta undan.
Samtök lækna hafa kallað eftir því að gripið verði til harðra sóttvarnaraðgerða, því annars muni heilbrigðiskerfið láta undan. AP/Alessandra Tarantino

Heilbrigðisstarfsmenn á Ítalíu eiga erfitt með að standast það álag sem er á þeim um þessar mundir vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar. Smituðum hefur farið hratt fjölgandi á Ítalíu. Til marks um það hafa rúmlega milljóni Ítalir greinst smitaðir af Covid-19 frá því faraldurinn náði fyrst þangað í upphafi ársins. Nú eru þó rúmlega 600 þúsund virk smit í landinu, svo vitað sé.

ANSA fréttaveitan hefur eftir Nino Cartabellotta, sem stýrir Gimbe samtökunum, að Ítalir hafi misst tökin á faraldrinum. Í gær hafi rúmlega eitt prósent ítölsku þjóðarinnar verið smitað af Covid-19.

Samtök lækna hafa kallað eftir því að gripið verði til harðra sóttvarnaraðgerða, því annars muni heilbrigðiskerfið láta undan. Samkvæmt AP fréttaveitunni eru Covid-19 sjúklingar í rúmlega helmingi allra sjúkrarýma á Ítalíu, eða 52 prósentum.

Það sem er þó frábrugðið stöðunni þegar hún var verst í vor, þá eru sjúklingar yngri og minna veikir. Álagið er ekki mest á gjörgæslum núna heldur á almennum deildum og segir í frétt AP að það sé vegna þess að yngra fólkið þurfi oft lengri umönnun en eldri aðilar.

Fjöldi innlagna hefur líka lengt til tafa í sjúkrahúsum.

Eins og síðast er ástandið verst í Lombardyhéraði, sem er fjölmennasta hérað Ítalíu. Ástandið er þó skilgreint sem slæmt í níu af 21 héraði landsins. Það þýðir að í þeim héruðum er notkun sjúkrarýma yfir 50 prósent.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×