Erlent

Út­göngu­bann að nóttu tekur gildi á Ítalíu á morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Guiseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. Alls hafa 759.829 manns greinst með kórónuveiruna á Ítalíu frá upphafi faraldursins.
Guiseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. Alls hafa 759.829 manns greinst með kórónuveiruna á Ítalíu frá upphafi faraldursins. Getty

Fólki alls staðar á Ítalíu verður meinað að yfirgefa heimili sín milli klukkan 22 á kvöldin og til klukkan fimm á morgnana næstu vikurnar.

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, hefur undirritað tilskipun um útgöngubannið, en með aðgerðunum er vonast til að hægt verði að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu.

Útgöngubannið er liður í röð nýrra takmarkana ítalskra stjórnvalda sem verða kynntar síðar í dag og er þeim ætlað að gilda til 3. desember hið minnsta. Búist er við að takmarkanirnar verði misharðar eftir því hver staðan er í einstaka héruðum.

Nú þegar hefur öllum líkamsræktarstöðvum, kvikmyndahúsum og leikhúsum í landinu verið gert að loka og er búist við að með nýjum aðgerðum yfirvalda verði krám, veitingastöðum og flestum verslunum víða einnig gert að loka. Slíkri starfsemi hefur að undanförnu verið heimilt að hafa opið til klukkan 18.

AP segir að íbúum í sumum héruðum, þar sem staðan þykir sérstaklega slæm, verði meinað að fara út fyrir héraðsmörkin næstu tvær vikurnar. Á það meðal annars við um héraðið Lombardy.

Alls hafa 759.829 manns greinst með kórónuveiruna á Ítalíu frá upphafi faraldursins. Þá hafa rúmlega 39 þúsund dauðsföll í landinu verið rakin til Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×