Íslenski boltinn

Guðjón aftur í KR eftir níu ára fjarveru

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón þekkir svörtu og hvítu litina í Vesturbænum vel frá fyrri veru hjá félaginu.
Guðjón þekkir svörtu og hvítu litina í Vesturbænum vel frá fyrri veru hjá félaginu. Vísir/SigurjónÓ

Guðjón Baldvinsson er genginn í raðir KR á ný. Hann lék síðast með KR 2011 þegar hann varð tvöfaldur meistari með liðinu.

Guðjón, sem er 34 ára, yfirgaf Stjörnuna eftir síðasta tímabil og er nú farinn aftur í KR. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við Vesturbæjarstórveldið.

Á síðasta tímabili lék Guðjón fjórtán leiki með Stjörnunni í Pepsi Max-deildinni og skoraði fjögur mörk. Hann gekk í raðir Stjörnunnar 2016 eftir nokkura ára dvöl í atvinnumennsku.

Guðjón lék fyrst með KR tímabilið 2008 og varð þá bikarmeistari með liðinu. Hann sneri aftur í Vesturbæinn 2010 og lék með KR næstu tvö ár. Guðjón lék alls 54 deildarleiki með KR og skoraði 27 mörk.

Guðjón Baldvinsson hefur gert tveggja ára samning við KR.vísir/bára

Guðjón endurnýjar nú kynnin við Rúnar Kristinsson sem þjálfaði hann í KR 2010 og 2011. Síðara tímabilið vann KR tvöfalt eins og áður sagði.

Auk Guðjóns hefur KR fengið Grétar Snæ Gunnarsson frá Fjölni.

KR endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili og verður þ.a.l. ekki með í Evrópukeppni á næsta ári.


Tengdar fréttir

KR staðfestir komu Grétars Snæs

Knattspyrnumaðurinn Grétar Snær Gunnarsson er genginn til liðs við KR en hann lék með Fjölni í Pepsi-Max deildinni á nýafstaðinni leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×