Erlent

Maðurinn sem átti að leiða lög­fræði­her­ferð Trumps greindist með veiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bossie greindist með kórónuveiruna á föstudaginn.
Bossie greindist með kórónuveiruna á föstudaginn. Darren McCollester/Getty

David Bossie, maðurinn sem var valinn til þess að leiða lögfræðiherferð framboðs Donalds Trump Bandaríkjaforseta með það fyrir augum að sanna ásakanir um víðtækt kosningasvindl og tryggja forsetanum áframhaldandi setu í embætti, hefur greinst með Covid-19.

Bossie er stjórnarformaður Sameinaðra borgara (e. Citizens United), íhaldssamra stjórnmálasamtaka í Bandaríkjunum.

Bossie er nú í einangrun og getur því ekki tekið þátt í ferlinu sem hann var valinn til þess að leiða. Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Bossie hafi greinst í gær. Bossie hefur sjálfur ekki viljað tjá sig um málið við fjölmiðla, en haft er eftir heimildarmönnum að finni aðeins til vægra einkenna Covid-19.

Á miðvikudaginn greindist Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins, með veiruna. Donald Trump greindist í síðasta mánuði sjálfur með kórónuveiruna, ásamt tugum öðrum sem tengjast honum. Þeirra á meðal eru Melania Trump forsetafrú og Barron, yngsti sonur þeirra.

Reyna að breyta úrslitum kosninganna í dómsölum

Eins og áður sagði hafði Bossie verið falið að fara fyrir teymi lögfræðinga sem undirbýr nú málsóknir vegna framkvæmdar forsetakosninganna í nokkrum ríkjum. Trump tapaði kosningunum fyrir Joe Biden, fyrrverandi varaforseta. Kjördagur var síðastliðinn þriðjudag en úrslitin lágu ekki fyrir fyrr en á laugardag, fimm dögum síðar.

Trump hefur ekki viljað viðurkenna ósigur í kosningunum. Hann hefur ítrekað haldið því fram að brögð hafi verið í tafli, og að víðtækt kosningasvindl sé ástæða þess að hann tapaði. Hvorki hann né aðrir á hans bandi hafa opinberlega lagt fram sannanir sem styðja slíkar staðhæfingar, en teymi forsetans ætlar engu að síður að láta reyna á lögmæti kosninganna fyrir rétti.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×