Stuðningsmenn Donald Trump virðast taka fréttum af sigri Joe Biden illa, ef marka má fjölmiðla vestanhafs. Hópur stuðningsmanna forsetans kom saman við þinghúsið í Georgíu, tóku undir málflutning forsetans og sögðu hægagang við talningu vera merki um kosningasvindl.
„Þetta er ekki búið! Þetta er ekki búið! Falsfréttir!“ kölluðu stuðningsmennirnir að því er fram kemur í frétt AP fréttaveitunnar. Voru þeir reiðir og ósannfærðir um að kjör Biden væri lögmætt.
Sömu sögu var að segja í borginni Phoenix í Arizona, þar sem talning fer enn fram. Biden hefur verið með forskot í ríkinu, og hefði það ásamt Nevada dugað til að tryggja honum kjörið síðustu daga þegar hann hafði einungis tryggt sér 253 kjörmenn.
WATCH: Roughly 100 Trump supporters gathered for a third straight day in front of the elections center in Phoenix, where hundreds of workers were processing and counting ballots. #Election2020 #Vote2020 pic.twitter.com/lBanYvtwc8
— Austin Kellerman (@AustinKellerman) November 7, 2020
Líkt og frægt er orðið var það Pennsylvanía sem kom Biden yfir 270 kjörmenn þegar tuttugu kjörmenn ríkisins virtust að öllum líkindum falla til hans. 273 kjörmenn voru þar með svo gott sem komnir í hús.
„Það er ekki búið að lýsa yfir úrslitum!“ kallaði Jake Angeli, þekktur stuðningsmaður Trump. „Ekki trúa þessari lygi! Þeir eru með höndina fasta ofan í kökukrúsinni og við ætlum með þetta fyrir Hæstarétt!“

Annar stuðningsmaður sem AP ræðir við, Chris Marks í Michigan-ríki, segist ekki treysta niðurstöðunum. Hann hafi sínar efasemdir um hvernig atkvæði voru talin og leggur til að öll atkvæði verði talin á ný, eða jafnvel að boðað verði til nýrra kosninga.
„Ég er bara hissa að þau lýstu ekki yfir sigurvegara fyrir kosningarnar.“
Ólíklegt þykir að ró færist yfir stuðningsmannahóp Trump næstu daga, enda hefur forsetinn gefið það út að hann muni ekki lýsa yfir ósigri. Hann, ásamt framboði sínu, ætli að höfða fleiri dómsmál á næstu dögum til þess að skera úr um lögmæti kosninganna, þrátt fyrir að engar sannanir um kosningasvik hafi enn komið fram.


