Erlent

Trump sagður ekki vera á þeim buxunum að ætla að viðurkenna ósigur á næstunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump var nokkuð hress á leið úr golfi í dag.
Donald Trump var nokkuð hress á leið úr golfi í dag. AP/Steve Helber

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er sagður ekki vera á þeim buxunum að ætla að viðurkenna ósigur í forsetakosningunum á næstunni. Þetta herma heimildir fréttastofu Reuters.

Greint hefur verið frá því í dag að Jared Kushner, tengdasonur Trump og einn af hans helstu ráðgjöfum, hafi rætt möguleikann á að viðurkenna ósigur í nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum við Trump. Þá greinir CNN frá því samkvæmt heimildum sínum að Melania Trump, eiginkona hans, hafi einnig ráðlagt Trump að tími sé kominn til þess að viðurkenna ósigur.

Aðrir fjölmiðlar ytra hafa reyndar efast um þessar frásagnir, til að mynda greinir Maggie Habermann blaðakona New York Times að Kushner sé ekki að ráðleggja tengdaföður sínum að viðurkenna ósigur. Þess í stað sé Kushner að ráðleggja Trump að skoða lagalegar aðgerðir, líkt og Trump hefur boðað að verði gert. Þetta hefur Haberman eftir heimildarmanni sínum innan úr Hvíta húsinu.

Frétt Reuters virðist frekar renna stoðum undir það að Trump ætli sér ekki að viðurkenna ósigur á næstunni. Er vísað í tilkynningu frá forsetaembættinu þar sem meðal annars segir að það sé langt í land að kosningunum sé lokið, ekki sé búið að lýsa Joe Biden, frambjóðanda Demókrata, formlega sem sigurvegara í neinu ríki, hvað þá í þeim lykilríkjum þar sem mjótt var á munum og Trump og bandamenn hans ætla sér að krefjast lagalegra aðgerða til þess að snúa taflinu sér í vil.

Telja það vera hlutverk Meadows að segja Trump hvenær tími sé kominn til að játa ósigur

Helstu fjölmiðlar lýstu Biden sem sigurvegara í kosningunum í gær eftir að greining þeirra á þeim atkvæðum sem greidd hafa verið og þeim atkvæðum sem eftir á að telja leiddi í ljós að ómögulegt er fyrir Trump að sigra í kosningunum.

Þó það hafi enga stjórnsýslulega merkingu hefur löng hefð skapast fyrir því að sá sem tapi kosningum, eftir að því hefur verið lýst því yfir hver muni sigra kosningarnar, játi ósigur. Trump hefur hins vegar ekki ljáð máls á slíku.

Talið er ólíklegt að málsóknir Trump og framboð hans muni gera eitthvað til þess að breyta niðurstöðum kosninganna og hafa helstu þjóðarleiðtogar heimsins óskað Biden og varaforsetaefni hans Kamölu Harris til hamingju með sigurinn, þar á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Í frétt Reuters segir að ráðgjafar og helstu bandamenn Trump geri sér grein fyrir því að möguleikar Trump á snúa niðurstöðum kosninganna séu litlar sem engar. Þeir kalla hins vegar eftir því að málsóknir Trump verði leyft að fara í hefðbundið ferli.

„Hann ætti að óska eftir því að fá endurtalningu þar sem það er hægt, leggja fram þær málsóknir sem þeir telja vænlegar og ef ekkert breytist ætti hann að viðurkenna ósigur,“ hefur Reuters eftir ónafngreindum ráðgjafa Trump.

Í frétt Reuters segir einnig að það muni væntanlega vera hlutverk Mark Meadows, framkvæmdastjóra Hvíta hússins að, ráðleggja Trump hvenær rétt sé að viðurkenna ósigur. Meadows greindist með kórónuveiruna á dögunum og er í sóttkví.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×