Enski boltinn

Eins og hrekkjusvín sem stelur matarpeningum

Sindri Sverrisson skrifar
Marcus Rashford átti magnaða innkomu á Old Trafford í gær.
Marcus Rashford átti magnaða innkomu á Old Trafford í gær. Getty/Matthew Peters

Rio Ferdinand greip til athyglisverðrar myndlíkingar þegar hann tjáði sig um frammistöðu Marcus Rashford í 5-0 sigri Manchester United á RB Leipzig í Meistaradeildinni í gær.

Rashford kom inn á sem varamaður og skoraði sína fyrstu þrennu á þeim hálftíma sem hann spilaði. Frammistaða hans utan vallar hefur ekki síður vakið athygli síðustu daga, þar sem hann hefur barist ötullega fyrir því að fátæk skólabörn fái fríar máltíðir.

Ferdinand, sem lék með United á árunum 2002-2014, var ef til vill með félagsmálabaráttu Rashfords ofarlega í huga þegar hann fjallaði um frammistöðu hans gegn Leipzig, á BT Sport í gærkvöld:

„Hann er sjóðandi heitur. Eina leiðin til að lýsa því hvernig hann kom inn og tók yfir leikinn er að þetta var eins og á skólaleikvelli þar sem að stóri strákurinn, úr sjötta bekk, kemur til að leika við krakkana í fyrsta bekk og lætur eins og hrekkjusvín við alla,“ sagði Ferdinand og bætti við:

„Hann er of fljótur, of sterkur og tekur matarpeningana þeirra. Hann fór illa með alla og bar höfuð og herðar yfir aðra.“

Ferdinand hélt áfram og benti á hve illa Rashford hefði farið með Dayot Upamecano, miðvörð sem talinn var hafa spilað svo vel fyrir Leipzig á síðustu leiktíð og var í The Times orðaður við United. Leikmenn sem hafi verið dásamaðir fyrir leik og á síðustu leiktíð hafi litið út eins og skólastrákar á móti Rashford.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.