Enski boltinn

Hélt upp á milljón undirskriftir með þrennu: Get ekki hætt að brosa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford fagnar hér einu af þremur mörkum sínum sinn fyrir Manchester United í gærkvöldi með Bruno Fernandes.
Marcus Rashford fagnar hér einu af þremur mörkum sínum sinn fyrir Manchester United í gærkvöldi með Bruno Fernandes. AP/Dave Thompson

Það hefur verið í nóg að snúast í baráttunni utan vallar hjá Manchester United manninum Marcus Rashford en hann sýndi líka hæfileika sína innan vallar í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Marcus Rashford skoraði sína fyrstu þrennu fyrir Manchester United í gærkvöldi þegar hann skoraði þrjú mörk á móti þýska liðinu RB Leipzig í 5-0 sigri á Old Trafford.

Rashford kom inn á sem varamaður á 63. mínútu leiksins en þá var staðan 1-0 fyrir United eftir mark frá Mason Greenwood í fyrri hálfleik.

Rashford kom Manchester United í 2-0 á 74. mínútu og bætti síðan við mörkum á 78.mínútu og svo á annarri mínútu í uppbótatíma þegar hann innsiglaði þrennuna sína.

Þessi afmælisvika varð því enn glæsilegri fyrir þennan 22 ára strák sem verður 23 ára á laugardaginn kemur.

Rashford hefur vakið mikla athygli og fengið mikið hrós fyrir baráttu sína fyrir ókeypis mat fyrir fátæk skólabörn en stjórnvöld hafa ekki tekið vel í þær hugmyndir hans.

Rashford fær hins vegar mikinn stuðning úr samfélaginu og náði að safna milljón undirskriftum í vikunni.

Það eru ekki allir sem geta haldið einbeitingu á tveimur stöðum í einu en Marcus Rashford hefur tekist það. Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hrósaði honum líka fyrir það.

„Marcus hefur sýnt okkur það að hann getur haldið einbeitingu á það sem er mikilvægt bæði innan sem utan vallar. Hann gerði mjög vel þegar hann kom inn af bekknum í dag,“ sagði Ole Gunnar.

Marcus Rashford var líka ánægður með uppskeru sína eins og sjást á Twitter síðu hans eftir leikinn.

Þar skrifaði hann: „3 mörk. 16 mínútur. 1030000 undirskriftir. Get ekki hætt að brosa. Ég hef beðið lengi eftir þessu en vildi bara að stuðningsmennirnir hefði fengið að upplifa þetta með mér.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.