Enski boltinn

Súpersamvinna Son og Kane skilar hverju markinu á fætur öðru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heung-Min Son og Harry Kane hafa fagnað mörgum mörkum saman á þessu tímabili en Tottenham er markahæsta liðið í deildinni.
Heung-Min Son og Harry Kane hafa fagnað mörgum mörkum saman á þessu tímabili en Tottenham er markahæsta liðið í deildinni. Getty/Andrew Boyers

Son Heung-min tryggði Tottenham sigur á Burnley í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi og enn á ný skoraði hann eftir stoðsendingu frá Harry Kane.

Samvinna Harry Kane og Son Heung-min í framlínu Tottenham hefur alltaf verið góð en hún hefur samt verið í öðrum klassa á þessu tímabili.

Son Heung-min er nú markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á þessu tímabili með átta mörk og Harry Kane er sá sem hefur gefið flestar stoðsendingar eða átta.

Breska ríkisútvarpið tók saman tölurnar með þessu frábæra tvíeyki í framlínunni hjá Jose Mourinho.

Harry Kane hefur alls komið með beinum hætti að þrettán mörkum í fyrstu sex leikjum Tottenham með fimm mörkum og átta stoðsendingum en liðið hefur skorað samtals sextán mörk. Kane hefur því komið að 81 prósent marka liðsins í ensku úrvalsdeildinni til þessa á tímabilinu.

Aldrei áður hefur leikmaður náð að koma með beinum hætti að þrettán mörkum í fyrstu sex umferðum ensku úrvalsdeildarinnar og Son Heung-min er ekki langt á eftir því hann hefur komið að tíu mörkum með átta mörkum og tveimur stoðsendingum.

Það er einkum súpersamvinna Son og Kane skilar hverju markinu á fætur öðru. Kane átti stoðsendinguna á Son í sigurmarkinu í gær en þeir hafa unnið saman í átta öðrum mörkum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Harry Kane lagði upp fjögur mörk fyrir Son í 5-2 sigri á Southampton. Þeir lögðu upp mark fyrir hvorn annan í 6-1 sigrinum á Manchester United og endurtóku síðan leikinn í 3-3 jafnteflinu á móti West Ham.

Samvinna Harry Kane og Son Heung-min hefur því skilað Tottenham níu mörkum á þessu tímabili og báðir hafa þeir enn fremur komið að tíu mörkum eða meira í þessum fyrstu sex umferðum.

Þegar við skoðum allan feril þeirra saman þá hafa þeir búið saman til 29 mörk fyrir Tottenham og nálgast þar met Didier Drogba og Frank Lampard sem bjuggu saman til 36 mörk fyrir Chelsea liðið á sama tíma.

Flest mörg búin til saman í ensku úrvalsdeildinni:

  • 36 mörk - Didier Drogba og Frank Lampard (Chelsea)
  • 29 mörk - Harry Kane og Son Heung-min (Tottenham)
  • 29 mörk - David Silva og Sergio Aguero (Man City)
  • 29 mörk - Robert Pires og Thierry Henry (Arsenal)
  • 27 mörk - Darren Anderton og Teddy Sheringham (Tottenham)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×