Ein marktilraun dugði Leicester til sigurs gegn Arsenal

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lék sér að Arsenal.
Lék sér að Arsenal. vísir/Getty

Arsenal fékk Leicester í heimsókn í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og hófu gestirnir leik með sinn besta mann, Jamie Vardy, á varamannabekknum.

Alexandre Lacazette virtist vera að koma Arsenal í forystu strax á 2.mínútu eftir að hafa skallað boltann í netið en markið var dæmt af þar sem Granit Xhaka var rangstæður og hafði truflandi áhrif á Kasper Schmeichel, markvörð Leicester, að mati dómarans.

Í kjölfarið tóku við frekar bragðdaufar mínútur þar sem Arsenal var meira með boltann en tókst ekki að ógna vel skipulögðu liði Leicester að neinu viti.

Vardy var skipt inná á 60.mínútu og það tók hann 20 mínútur að setja mark sitt á leikinn en hann átti fyrstu marktilraun gestanna á mark á 80.mínútu og hún rataði í netið.

Vardy fékk svo tækifæri til að skora annað mark í uppbótartíma en hann skaut boltanum í höfuðið á Bernd Leno úr góðu færi.

Fleiri urðu mörkin ekki og 0-1 sigur Leicester á hugmyndasnauðu Arsenal liði staðreynd.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.