Innlent

Ekki til um­ræðu að loka á flug frá til­teknum löndum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Vísir/Vilhelm

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir það ekki hafa komið til umræðu að stoppa flug frá tilteknum löndum. Þriðji stóri hópurinn sem var á leið til landsins frá Póllandi í gær greindist smitaður við landamæraskimun á dögunum.

„Við erum með það sem sóttvarnalæknir lagði til að væru öruggustu aðgerðirnar á landamærunum, þessi tvöfalda skimun. Hún hefur heldur betur sýnt sig og ég held að það sé engin ástæða til að breyta því þegar faraldurinn er í mikilli uppsveiflu víða í Evrópu,“ sagði Víðir í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

„Öflugt teymi heilbrigðisstarfsmanna hefur leikið lykilhlutverk“

Hann segir mjög jákvætt að faraldurinn sé í rénun hér á landi.

„Við sjáum árangur erfiðisins, við sjáum að kúrfan er undan að láta og okkur er að takast að beygja hana og við erum með faraldurinn á niðurleið,“ sagði Víðir.

Hann segir einnig mjög jákvætt að sjá að færri hafi þurft að leggjast inn á gjörgæslu í þessari bylgju faraldursins en í vor. Það sé að miklu leiti uppsafnaðri þekkingu að þakka.

„Svo er annað jákvætt sem við erum að sjá að það hafa færri þurft að leggjast inn á gjörgæslu og færri veikst alvarlega og það er auðvitað öflugt teymi heilbrigðisstarfsmanna sem hefur leikið lykilhlutverk í því. Við erum að læra miklu meira á veiruna, það er ekkert sem bendir til þess að hún sé veikari eða eitthvað slíkt en fyrr, það er bara að þekkingin hefur aukist og við vitum betur hvernig á að bregðast við þegar fólk fer að sýna ákveðin einkenni.“

Þakkar fyrir hvern dag þar sem smitum fækkar

Hann segist vongóður að þessi þriðja bylgja faraldursins sé í rénun en segir að það muni taka lengri tíma að sjá hvort hertar sóttvarnaaðgerðir beri þann árangur sem vonast er eftir.

„Maður þakkar fyrir hvern dag þar sem við sjáum að smitum sé að fækka og þetta stóra hlutfall þeirra sem eru í sóttkví þegar þeir greinast að það haldi áfram að ver þannig. Að þetta sé smám saman að síga niður,“ sagði Víðir.

„Það mun taka einhvern tíma að huga að því að slaka á aðgerðum. Það er ekki að gerast á allra næstu dögum þannig að við þurfum að halda áfram,“ sagði Víðir.

Þá skipti miklu máli að fólk þrauki og hafi seiglu í að standa af sér það sem eftir er af þessari þriðju bylgju. Það sé mikilvægt að fólk ræði það við sína nánustu að það sé þreytt á ástandinu og líði kannski ekki vel.


Tengdar fréttir

„Eitthvað sem er ekki mér að kenna“

Þunguð kona á ekki rétt á veikindagreiðslum úr fæðingarorlofssjóði þar sem of langur tími er liðinn frá því hún var á vinnumarkaði. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.