Innlent

Þriðji stóri hópurinn frá Póllandi greindist með veiruna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Undanfarið hafa þrír stórir hópar sem voru að koma frá Póllandi greinst með kórónuveiruna á landamærunum.
Undanfarið hafa þrír stórir hópar sem voru að koma frá Póllandi greinst með kórónuveiruna á landamærunum. Vísir/Vilhelm

Sautján manns sem komu frá Póllandi greindust með kórónuveiruna í landamæraskimun í gær. Fjórir þeirra eru með virk smit en mótefnamælingar er beðið í þrettán tilfellum.

Þetta er þriðji stóri hópurinn sem greinist með veiruna á landamærum síðustu daga eftir að hafa verið á ferðalagi um Pólland.

Í síðustu viku greindist átján manna hópur með veiruna og voru þau öll með virkt smit. Síðastliðinn sunnudag greindust síðan um tuttugu manns á landamærunum sem einnig voru að koma frá Póllandi.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi í dag að undanfarið hefðu óvenjulega margir farþegar greinst á landamærunum. Aðallega væru þetta einstaklingar sem væru að koma frá Póllandi og fólkið væri að greinast með veiruna annað hvort í fyrri eða seinni skimun.

Sagði Þórólfur þetta vafalaust endurspegla mikla fjölgun smitaðra í Póllandi auk þess sem þetta gæti bent til þess að á næstunni myndi mögulega sjást hærra hlutfall smitaðra á landamærunum en verið hefur. Faraldurinn væri enda á uppleið í Evrópu.

Þórólfur var spurður að því hvort eitthvað eigi að bregðast við þessari fjölgun smitaðra á landamærunum. Hann benti á núverandi aðgerðir sem fela í sér að farþegi má velja á milli fjórtán daga sóttkvíar eða að fara í skimun við komuna til landsins, svo fimm daga sóttkví og svo aðra skimun.

Að sögn Þórólf er til skoðunar hvort eitthvað eigi að breyta þessu vinnulagi, til dæmis hvort skylda eigi farþega frá ákveðnum löndum til að fara í skimun.


Tengdar fréttir

Komu til landsins í þremur flugvélum

Fólkið sem greinst hefur með kórónuveiruna á landamærunum á síðustu dögum eftir að hafa dvalið í Póllandi kom hingað til lands í þremur hópum.

Póllandsfararnir allir með virkt smit

Ekkert þeirra átján sem kom með flugi hingað til lands í fyrradag eftir dvöl í Póllandi reyndist með mótefni gegn kórónuveirunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×