Erlent

Trump segir Fauci og aðra sérfræðinga vera fífl

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Anthony Fauci, sóttvarnalæknir.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Anthony Fauci, sóttvarnalæknir. EPA/Stefani Reynolds

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í dag að Anthony Fauci sóttvarnalæknir og aðrir heilbrigðissérfræðingar í ríkisstjórn hans væru fífl. Þetta sagði forsetinn í símtali við starfsmenn framboðs síns þar sem hann reyndi að stappa stálinu í fólkið tveimur vikum fyrir forsetakosningar.

„Fólk er þreytt á Covid. Fólk segir: Skiptir ekki máli, látið okkur í friði,“ sagði Trump og bætti við: 

„Fólk er þreytt á að hlusta á Fauci og öll þessi fífl.“

Trump sagði þar að auki að Fauci væri 500 ára gamall og að ef hann hefði hlustað á Fauci hefðu örugglega 700 eða 800 þúsund Bandaríkjamenn dáið úr Covid-19.

Slétt sama þótt blaðamenn væru að hlusta

Samkvæmt opinberum tölum hafa um 220 þúsund Bandaríkjamenn dáið úr Covid-19 frá því faraldurinn hófst og eru þeir hvergi fleiri í heiminum, svo vitað sé.

Trump sagði einnig að Fauci hefði verið hörmulegur og að í hvert sinn sem hann færi í sjónvarpsviðtal stæði hann sig ömurlega. Samkvæmt umfjöllun Politico ítrekaði Trump því næst að ef einhverjir blaðamenn væru að hlusta, þá mættu þeir hafa þetta eftir honum.

Honum væri slétt sama.

Trump er reiður út í Fauci vegna viðtals hans í 60 mínútum um helgina. Þar sagði Fauci meðal annars að það hefði ekkert komið honum á óvart að Trump sjálfur hefði smitast af Covid-19 og gagnrýndi hann viðbrögð ríkisstjórnar Trump við faraldrinum og upplýsingaflæði hans vegna.

Fauci gagnrýndi Trump einnig nýverið eftir að framboð forsetans notaði orð Fauci án samhengis í auglýsingu.

Forsetinn ítrekaði svo á Twitter í kvöld að hann væri ósáttur við Fauci. Þar gagnrýndi Trump Fauci fyrir að segja í viðtalinu að honum hefði ekki verið leyft að tjá sig í fjölmiðlum eins og hann vildi. Trump gagnrýndi Fauci einnig fyrir að geta ekki kastað hafnabolta.

AP fréttaveitan segir að áðurnefnt símtal við framboðsstarfsmennina hafi einnig snúist um framboðið. Trump lýsti því yfir að hann væri vongóður fyrir kosningarnar, jafnvel þó hann sagðist ekki vera jafn vongóður og hann var fyrir tveimur vikum. Kannanir eru honum ekki í vil þessa dagana.

Þá hafa kannanir sýnt að málefnið sem er efst í huga kjósenda er faraldur nýju kórónuveirunnar sem veldur Covid-19. Þar þykir Trump ekki koma vel út.

Forsetinn virðist þar að auki í fjárhagsvandræðum og er Biden víðast hvar að verja mun meiri peningum í sjónvarpsauglýsingar en Trump. Hann segir þó að kosningafundir hans muni gera gæfumuninn.

„Ég get farið í þessi ríki og haldið fund. Biden getur það ekki. Ég fer á fund og það mæta 25 þúsund manns. Hann fer og það mæta fjórir,“ sagði Trump.

Fram að kosningum mun hann verja miklum tíma í að halda þessa fundi en það er þó óljóst hvort það muni duga til. Það hefur sýnt sig að stuðningsmenn Trump mæta á kosningafundi hans en aðrir gera það ekki. Hann hefur ekki aukið fylgi sitt með því að halda fundi með fólki sem hefur þegar ákveðið að kjósa hann.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×