Jafn­tefli niður­staðan í ó­trú­legum leik E­ver­ton og Liver­pool

Það var líf og fjör í leik dagsins á Goodison Park. Jordan Pickford átti góðan leik en getur þakkað æðri máttarvöldum fyrir að mark Liverpool í uppbótartíma var dæmt af.
Það var líf og fjör í leik dagsins á Goodison Park. Jordan Pickford átti góðan leik en getur þakkað æðri máttarvöldum fyrir að mark Liverpool í uppbótartíma var dæmt af. Laurence Griffiths/Getty Images

Það VAR mikil dramatík í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni er erkifjendurnir Everton og Liverpool mættust. Lokatölur 2-2 eftir að mark var dæmt af Englandsmeisturum Liverpool í uppbótartíma.

Jordan Henderson hélt hann hefði tryggt Liverpool öll stigin er hann kom knettinum í netið í uppbótartíma leiksins. Á einhvern ótrúlegan hátt var flautuð rangstaða en eftir að markið var skoðað var það dæmtt af. Um millimetraspursmál var að ræða og það í annað skiptið í leiknum.

Gylfi Þór Sigurðsson lék rúman hálftíma liði Everton í dag en hann hóf leikinn á varamannabekk liðsins.

Upphaf leiksins var vægast sagt áhugavert. Strax á 3. mínútu kom Sadio Mané Englandsmeisturunum yfir með skoti af stuttu færi eftir sendingu vinstri bakvarðarins Andrew Robertson.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum hefði Jordan Pickford, markvörður Everton, átt að fá reisupassann. Hann fór þá í glórulausa tæklingu innan vítateigs en sem betur fer fyrir Pickford og Everton var flögguð rangstaða. Það eitt og sér ætti hefði ekki átt að koma í veg fyrir rautt spjald á Pickford sem flaug inn í Virgil van Dijk með báða fætur á lofti.

Hollenski miðvörðurinn þurfti að fara meiddur af velli og í hans stað kom Joe Gomez. Hafði Van Dijk alls leikið 74 deildarleiki fyrir Liverpool frá upphafi til enda áður en hann neyddist til að fara út af í dag.

Var þetta fyrra atvikið þar sem VAR kom við sögu í dag.

Jurgen Klopp hefur eflaust ekki verið sáttur með myndbandsdómgæslu dagsins.Laurence Griffiths/Getty Images

Jöfnunarmark Everton kom á 19. mínútu leiksins. James Rogriguez átti þá hornspyrnu sem rataði á kollinn á miðverðinum Michael Keane. Skalli Keane var ekki fullkominn en Adrian í marki Liverpool náði aðeins að slæma hendi í knöttinn sem söng í netinu og staðan orðin 1-1.

Var þetta þriðja stoðsending Rodriguez í deildinni til þessa en hann hefur einnig skorað þrjú mörk. Ágæts árangur hjá þessum skemmtilega Kólumbíumanni til þessa.

Eftir sléttan hálftíma meiddist fyrirliði Everton, Seamus Coleman, aftan í læri og þurfti að fara af velli. Í stað hans kom Ben Godrey inn af bekknum í sínum fyrsta leik fyrir Everton. Gekk hann í raðir Everton þann 5. október en hann var hluti af liði Norwich City sem féll úr úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan því 1-1 er flautað var til hálfleiks.

Upphaf þess síðari var töluvert rólegra. Richarlison fékk gott færi til að koma heimamönnum yfir er hann skallaði fyrirgjöf frá hægri í stöngina á marki Liverpool þegar tæp klukkustund var liðin af leiknum.

Það var hins vegar Mo Salah sem kom Englandsmeisturunum á nýjan leik á 72. mínútu. Staðan þá orðin 2-1 og strax í kjölfarið kom Gylfi Þór Sigurðsson inn af bekknum hjá Everton. Adrian var þó ekki lengi í paradís og tæpum tíu mínútum síðar fór Lucas Digne upp vinstri vænginn og gaf fyrir markið þar sem Dominic Calvert-Lewin reis manna hæst og skallaði knöttinn í hornið.

Staðan orðin 2-2 þegar rétt rúmar átta mínútur voru til leiksloka. Það átti þó nóg eftir að gerast en Richarlison fékk rautt spjald fyrir slæma tæklingu út á velli á 90. mínútu leiksins. Liverpool hélt þeir hefðu nýtt sér liðsmuninn er Jordan Henderson skoraði í uppbótartíma en á einhvern ótrúlegan hátt var dæmd rangstaða. Pickford hefði átt að gera betur í marki Everton en það kom á endanum ekki að sök.

Lokatölur því 2-2 og Everton heldur þar með toppsæti deildarinnar. Fjórir sigrar og eitt jafntefli eftir fimm leiki. Liverpool er í öðru sæti með tíu stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira