Erlent

Þrír geimfarar sendir til geimstöðvarinnar á mettíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Soyuz-2.1a eldflaug bar Soyuz MS-17 geimfarið á braut um jörðu.
Soyuz-2.1a eldflaug bar Soyuz MS-17 geimfarið á braut um jörðu. AP/Roscosmos

Þremur geimförum var í morgun skotið á loft og sendir af stað til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Soyuz-geimfarið sem flutti þá er nú tengt geimstöðinni, einungis þremur klukkustundum eftir geimskotið sjálft. Aldrei áður hefur tekið svo skamman tíma að fljúga til geimstöðvarinnar.

Um borð í geimfarinu eru þau Sergey Ryzhikov og Sergey Kud-Sverchkov frá Roscosmos, geimvísindastofnun Rússlands, auk Kate Rubins frá NASA, geimvísindastofnun Bandaríkjanna. Þau munu verja næstu sex mánuðum um borð í geimstöðinni á braut um jörðu.

Fyrir eru þeir Chris Cassidy, Anatoly Ivanishin og Ivan Vagner um borð í geimstöðinni. Þeir eiga að snúa aftur til jarðar í næstu viku.+

Geimfarinu var skotið frá Baikonur í Kasakstan í morgun og með því að breyta til og prófa nýja aðferð tókst að koma geimfarinu til geimstöðvarinnar á einungis þremur tímum og þremur mínútum. Það er mun minni tími en áður hefur þurft.

Meðal verkefna geimfaranna er að framkvæma ýmsar rannsóknir og komast að því að hvernig súrefni lekur úr rússneska hluta geimstöðvarinnar. Þaðan hefur lítið magn súrefnis lekið um tíma og hefur lekinn ekki fundist, þrátt fyrir leit. Hann er það lítill að hann hefur ekki talist ógna þeim geimförum sem hafa haldið til um borð í geimstöðinni.

Ryzhikov, sem er yfirmaður þessarar geimferðar, sagði fyrir geimskotið að þau tækju með sér nýjan búnað sem ætti að gera þeim auðveldara að finna lekann, auk sérstaks búnaðar til að bæta hann.

Til stendur að skjóta fleiri geimförum til geimstöðvarinnar í næsta mánuði. Þá ætlar fyrirtækið SpaceX að skjóta þeim Mike Hopkins, Victor Glover og Shannon Walker frá NASA auk Soichi Noguchi frá Geimvísindastofnun Japan, á loft.

Geimskotið átti að fara fram þann 31. október en því hefur verið frestað um nokkrar vikur, án þess þó að fastur tími hafi verið settur, til að gefa starfsmönnum SpaceX tíma til að greina nánar villur sem komu upp við annað geimskot fyrr í þessum mánuði.

Hér má sjá beina útsendingu frá NASA.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×