Erlent

Bjartsýnir á bata Trump

Sylvía Hall skrifar
Læknateymi Trump talar við fjölmiðla fyrir framan Walter Reed hersjúkrahúsið. 
Læknateymi Trump talar við fjölmiðla fyrir framan Walter Reed hersjúkrahúsið.  AP/Jacquelyn Martin

Ástand Donald Trump Bandaríkjaforseta batnar með degi hverjum að sögn lækna hans. Hann hefur fengið stera í meðferðinni eftir að súrefnismettun í blóði hans lækkaði en vonir eru bundnar við að hann geti útskrifast á morgun.

Sean Conley, læknir forsetans, segir forsetann hafa fengið súrefni í að minnsta kosti eitt skipti áður en hann var fluttur á Walter Reed hersjúkrahúsið á föstudag. Þá hafi súrefnismettun mælst 94 prósent að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, en í heilbrigðri manneskju sé hún 95 prósent eða hærri.

Veikindi forsetans hafa vakið mikla athygli líkt og gefur að skilja. Vangaveltur hafa verið uppi varðandi tímalínu smitsins, en forsetinn er sagður hafa greinst fyrr en hann tilkynnti. Í millitíðinni hafi hann sótt hina ýmsu viðburði þar sem ekki var notast við andlitsgrímur. Þá gætu veikindin orðið hitamál í kosningabaráttunni, en kosningar fara fram eftir um það bil mánuð.

Trump fékk steralyfið dexamethasone sem hefur verið talið öflugt í baráttunni við alvarleg veikindi af völdum kórónuveirunnar. Dexamethasone eru bólgueyðandi sterar en þeir hafa ekki verið taldir hjálpa mikið á fyrstu stigum sýkingarinnar. Miðað við tímalengd sýkingar forsetans segja læknar hans ætla að gera allt sem í valdi þeirra stendur til þess að lækna hann.

„Miðað við tímalínu sjúkdómsins erum við að hámarka allt sem við getum gert fyrir hann. Við ákváðum að í þessu tilfelli væri ávinningurinn meiri en áhættan,“ sagði Conley.

Donald Trump lendir við Walter Reed hersjúkrahúsið.AP/Jacquelyn Martin

Conley gekkst við því að hafa gefið heldur jákvæða lýsingu á veikindum forsetans í gær. Læknateymið hafi ekki viljað veita upplýsingar sem gætu „fært þróun sjúkdómsins í ranga átt“ en það hafi komið út eins og þau væru að reyna að fela eitthvað.

Brian Garibaldi, annar læknir í læknateyminu, segir forsetann nokkuð brattan. Hann sé á fótum og tilmælin séu að hann eigi að borða og drekka nóg. Enginn hiti hafi mælst frá því á föstudag en Garibaldi vildi þó ekki tjá sig um hvort skemmdir hefðu sést á lungnamyndum forsetans. Trump er þó talinn vera í áhættuhópi vegna aldurs og líkamsþyngdar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×