Erlent

Grípa til harðra aðgerða í Madríd

Samúel Karl Ólason skrifar
Heilbrigðisstarfsmernn við skimun í Madríd.
Heilbrigðisstarfsmernn við skimun í Madríd. AP/Bernat Armangue

Um það bil 4,8 milljónir íbúa Madrídar mega nú ekki yfirgefa borgina, sem er fyrsta höfuðborg Evrópu þar sem gripið er til svo harðra sóttvarnaraðgerða á nýjan leik. Veitingahúsum og krám í Madríd verður lokað snemma í kvöld og verður hámarksfjöldi gesta þeirra takmarkaður um helming í framhaldi af því.

Aðgerðirnar nú eru ekki jafn strangar og þær voru fyrr á árinu þegar Covid-19 var í hraðri útbreiðslu á Spáni. Fólki var meinað að yfirgefa heimili sín í mars. Nú hefur þeim verið ráðlagt að yfirgefa ekki heimili sín nema þegar nauðsynlegt er.

Smituðum hefur farið hratt fjölgandi á Spáni og í Madríd. Um 850 af hverjum hundrað þúsund íbúum hafa smitast, samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, sem Reuters vitnar í.

Íbúar sem blaðamenn Reuters ræddu við segjast þreyttir á deilum embættismanna í Madríd og ríkisstjórnarinnar. Borgarstjórn Madrídar hafði sett sambærilegar takmarkanir á í fátækari hverfum borgarinnar en ríkisstjórn Spánar fyrirskipaði að þær áttu að ná yfir alla íbúa og íbúa úthverfa Madrídar.

Þá efast einhverjir um að aðgerðirnar muni virka.

„Við höfum verið með grímur í átta mánuði. Án klúbba og samkvæma en samt er faraldurinn enn í gangi. Hvaða máli munu þessar aðgerðir þá skipta?“ sagði Sonny van den Hosltein, eigandi veitingahúss.

Hann sagði íbúa ráðvillta og óttaslegna.

Í heildina hafa um 779 þúsund manns smitast af Covid-19 á spáni og tæplega 32 þúsund hafa dáið, frá upphafi faraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×