Íslenski boltinn

Sveindís Jane og Agla María efstar í bæði mörkum og stoðsendingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir hafa spilað frábærlega í sumar.
Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir hafa spilað frábærlega í sumar. Vísir/Samsett

Stóru leikirnir eru einmitt leikir fyrir stjörnur liðanna að sýna hvað þær geta og það verður krefjandi fyrir Íslandsmeistara Vals að stoppa tvo heitustu leikmenn Pepsi Max deildarinnar í stórleik Vals og Breiðabliks á morgun.

Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir fóru á kostum í fyrri leik Breiðabliks og Vals þar sem Sveindís Jane skoraði þrennu og Agla María gaf  þrjár stoðsendingar.

Valur og Breiðablik mætast í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í Pepsi Max deild kvenna á morgun en leikurinn hefst klukkan 17.00 á Origo vellinum á Hlíðarenda og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Breiðablik hefur skorað 22 mörkum meira en Valur í Pepsi Max deild kvenna í sumar og þar hafa þessir tveir leikmenn liðsins farið á kostum, bæði í að skora mörkin sem og að gefa stoðsendingar.

Sveindís Jane Jónsdóttir og Agla María Albertsdóttir eru núna í efstu sætunum á bæði listanum yfir flest skoruð mörk og flestar gefnar stoðsendingar.

Sveindís Jane Jónsdóttir er markahæsti leikmaður Pepsi Max deildarinnar með 14 mörk í 14 leikjum. Hún hefur skorað einu marki meira en Agla María Albertsdóttir og Elín Metta Jensen.

Agla María Albertsdóttir er aftur á móti sá leikmaður sem hefur gefið flestar stoðsendingar til þessa í sumar eða 15 stoðsendingar í 14 leikjum. Þar er Sveindís Jane Jónsdóttir aftur á móti í öðru sæti með 12 stoðsendingar.

Sveindís Jane Jónsdóttir hefur alls komið að 29 mörk með beinum hætti (14 mörk, 12 stoðsendingar, 2 skot sem fylgt var eftir og 1 fiskað víti sem gaf mark) en Agla María Albertsdóttir hefur komið að 28 mörkum Blika (13 mörk og 15 stoðsendingar).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×