Erlent

Ísland á rauðan lista Breta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Samgönguráðherra Bretlands, Grant Shapps, greindi frá á Twitter síðu sinni.
Samgönguráðherra Bretlands, Grant Shapps, greindi frá á Twitter síðu sinni. Getty/PA Images

Ísland er komið á rauðan lista breskra stjórnvalda. Frá og með klukkan fjögur að morgni laugardagsins 26. september þurfa ferðamenn frá Íslandi, Danmörku, Slóvakíu og Curacao að fara í fjórtán daga sóttkví. 

Yfirvöld í Danmörku ráða sömuleiðis Dönum frá því að ferðast til Íslands. Íslandi, Bretlandi, Írlandi og Slóveníu var bætt á lista Dana yfir lönd sem ekki er ráðlagt að ferðast til nema nauðsyn krefji. DR greinir frá.

1000 pund lágmarkssekt

Grant Shapps, samgöngumálaráðherra Bretlands, greindi frá aðgerðum Breta á Twitter í dag. Hann vísaði til þess að ný gögn gerðu að verkum að grípa þyrfti til þessara aðgerða. 

Í tilkynningu á vef bresku ríkisstjórnarinnar kemur fram að rúmlega 900 prósenta aukning hafi verið í fjölda smitaðra hér á landi á viku tímabili.

Ráðherrann minnir á að sektir við brotum á sóttkví eru að lágmarki eitt þúsund pund eða sem nemur um 177 þúsund krónum.

Nýgengni smita, það er fjöldi nýrra tilfella síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa, hefur rokið upp síðustu daga hér á landi og er nú um 83. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tjáði fréttastofu í gær að tölurnar færu víða hækkandi og Ísland myndi líklega lenda á rauðum listum þjóða. Strangari reglur muni því gilda um ferðamenn sem hafa verið hér.

„Ég veit að Bretar hafa verið að spá í því og vafalaust einhverjar fleiri þjóðir,“ sagði Þórólfur.

Innan við sólarhring síðar er Ísland komið á rauðan lista Breta og Dönum ráðlagt frá heimsóknum hingað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.