Enski boltinn

Sky Sports valdi Gylfa mann leiksins: Fagnar því að fá góða menn til Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Keane þakkar Gylfa Þór Sigurðssyni fyrir stoðsendinguna í sigri Everton í gær Gylfi kom inn í byrjunarliðið og fékk fyrirliðabandið.
Michael Keane þakkar Gylfa Þór Sigurðssyni fyrir stoðsendinguna í sigri Everton í gær Gylfi kom inn í byrjunarliðið og fékk fyrirliðabandið. Getty/Peter Powell

Gylfi Þór Sigurðsson sagði ekki hafa hugmynd um að markið hans í gær hafi verð hundraðasta markið hans í enska boltanum.

Sky Sports valdi Gylfa Þór Sigurðsson besta mann vallarins í gærkvöldi en hann var með mark og stoðsendingu í 3-0 sigri Everton á Salford City í annarri umferð enska deildabikarsins.

Gylfi var á bekknum í fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi þar sem nýkeyptir miðjumenn liðsins fengu tækifæri.

Gylfi skoraði annað mark Everton í leiknum eftir að hafa fengið sendingu frá Anthony Gordon. Hann hafði áður lagt upp skallamark fyrir Michael Keane þegar hornspyrna Gylfa fór beint á höfuðið á miðverðinum.

Gylfi hefði getað skorað annað mark í leiknum þegar hann skaut í stöngina. Sky Sports fékk Gylfa í viðtal og spurði hann af því hvort að hann hefði vitað að þetta væri hans hundraðasta mark.

„Nei ég vissi ekki af því svo það er gaman að heyra. Ég hefði getað skorað 101. markið mitt en það gerðist ekki. Vonandi kemur það í næsta leik," sagði Gylfi í viðtalinu.

„Þetta var góð frammistaða hjá liðinu og gott að vera áfram í keppninni. Þeir spiluðu vel en ef við hefðum nýtt færin okkar í fyrri hálfleik hefði þetta verið annar leikur. Við héldum boltanum vel og þeir urðu þreyttir þegar á leið. Á heildina litið góð frammistaða," sagði Gylfi eftir leikinn.

Gylfi fagnar meiri samkeppni á miðju Everton liðsins en það var mikilvægt fyrir hann að spila vel í gær þegar hann fékk aftur tækifæri í byrjunarliðinu. Allan, Abdoulaye Doucoure og James Rodriguez voru allir keyptir og Everton vann fyrsta leik með Gylfa á bekknum.

„Það skiptir ekki máli hvaða leikur það er því það er alltaf gott tækifæri til að sýna að þú getur spilað fyrir þetta félag, að sýna það að þú sért nógu góður. Auðvitað munu koma inn nýir leikmenn hjá stóru félagi eins og Everton. Það er gott að við séum að fá inn góða leikmenn og hópurinn er því að verða sterkari. Það býr til meiri samkeppni en leikirnir verða margir að það er gott að hafa stærri hóp," sagði Gylfi við Sky Sports eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×