Íslenski boltinn

„Vanvirðing við leikinn að láta Dóru Maríu ekki spila alltaf“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Að mati Kristínar Ýrar Bjarnadóttur ætti Dóra María Lárusdóttir að spila alla leiki fyrir Val.
Að mati Kristínar Ýrar Bjarnadóttur ætti Dóra María Lárusdóttir að spila alla leiki fyrir Val. vísir/bára

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir var einmitt viðbótin sem Val vantaði. Þetta segir Mist Rúnarsdóttir, sérfræðingur Pepsi Max marka kvenna á Stöð 2 Sport. Kristín Ýr Bjarnadóttir skilur hins vegar ekki af hverju Dóra María Lárusdóttir spilar ekki alla leiki fyrir Val.

Gunnhildur Yrsa skoraði tvö mörk þegar Valur vann 4-0 sigur á ÍBV í Pepsi Max-deild kvenna á sunnudaginn.

„Við sjáum bara hvernig hún er að koma inn í deildina. Hefur hún ekki verið í liði umferðarinnar eftir hvern einasta leik? Hún hefur verið nálægt því að skora og setti tvö þarna,“ sagði Mist í Pepsi Max mörkum kvenna í gær.

„Hún er algjör Duracell-kanína og vinnuhestur og akkúrat það sem Valsliðið þurfti,“ bætti Mist við.

Kristín Ýr segir að Gunnhildur Yrsa, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og Dóra María myndi gott teymi á miðju Vals.

„Þetta er fullkomin miðja ef þú spyrð mig. Adda er í sexunni, vinnur rosalega vinnu og stýrir öllu. Dóra María í áttunni, að hlaupa á milli teiga og svo Gunnhildur Yrsa sem tekur hlaup inn fyrir vörnina. Þetta eru rosalega ólíkir leikmenn en bæta hver aðra upp,“ sagði Kristín Ýr.

Dóra María hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliðs Vals í sumar. Kristín Ýr segist eiga erfitt með að skilja það.

„Mér finnst það vanvirðing fyrir leikinn að láta Dóru María ekki spila alltaf. Þú sérð hvernig gekk gegn Selfossi þar sem hún spilaði ekki neitt. Það kemur svo mikil ró og yfirvegun með henni. Mér finnst mjög skrítið að nota hana ekki og ég veit að hún hefur ekki verið meidd. Mér finnst galið að nota ekki svona góðan leikmann,“ sagði Kristín Ýr.

Klippa: Pepsi Max mörk kvenna - Umræða um Dóru Maríu og Val



Fleiri fréttir

Sjá meira


×