Erlent

Enn tafir á flugi frá Tenerife

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sandur hefur fyllt öll vit á Kanaríeyjum.
Sandur hefur fyllt öll vit á Kanaríeyjum. vísir/getty

Enn eru tafir á flugi frá Tenerife vegna sandstorms sem gengið hefur yfir Kanaríeyjar. Flugi Norwegian Air sem fara átti frá Tenerife South til Keflavíkur klukkan átta að staðartíma í morgun, klukkan sjö að íslenskum tíma, hefur verið seinkað til klukkan 14:25.

Fleiri flugum sem fara áttu frá Tenerife South hefur verið frestað og einu flugi sem fara átti á eftir hefur verið aflýst.

Í frétt Guardian um málið kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá flugmálayfirvöldum hafi verið hægt að fljúga frá fjórum flugvöllum á Kanaríeyjum í morgun, það er frá Gran Canaria, Lanzarote, La Palma og Tenerife North.

Þúsundir ferðalanga, þar á meðal hundruð Íslendinga, urðu strandaglópar á Kanaríeyjum um helgina vegna sandstormsins. Stormurinn ber með sér sand úr Sahara-eyðimörkinni.

Hafði spænska veðurstofan varað við því að veðrið gæti varað fram á daginn í dag en vindur hefur mælst allt að 35 m/s.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda er á meðal Íslendinga sem staddur er á Kanaríeyjum. Hann sagði í samtali við fréttastofu í gær að fáir væru á ferli á Gran Canaria, enda væri lítið spennandi að vera úti þegar veðrið er svona. Enn væri hvasst, ryk og sandur í andrúmsloftinu og því best að halda sig innandyra.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.