Erlent

Mynd­band sýnir erfitt á­stand á Kanarí­eyjum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skyggni er afleitt á Kanaríeyjum vegna stormsins.
Skyggni er afleitt á Kanaríeyjum vegna stormsins. Vísir/AP

Flugsamgöngur liggja nú að stórum hluta niðri á Kanaríeyjum vegna sandstorms sem þar gengur yfir. Skyggni er afleitt á eyjunum og afar hvassir vindar geisa, líkt og sjá má í meðfylgjandi myndbandi sem birt var á vef BBC í dag.

Stormurinn ber með sér sand úr Sahara-eyðimörkinni og hefur spænska veðurstofan varað við því að óveðrið gæti geisað þangað til á morgun, mánudag. Í frétt BBC segir að vindar mælist allt að 35 m/s.

Þá hafa, auk flugsamgangna, samgöngur á láði og legi legið niðri á eyjunum. Einnig þurfti slökkvilið að gera hlé á störfum sínum við að ráða niðurlögum gróðurelda við bæinn Tasarte vegna stormsins.

Fjöldi Íslendinga kemst hvorki lönd né strönd á Kanaríeyjum vegna sandstormsins. Líkt og hundruðum annarra ferða var flugi Norwegian frá Tenerife til Keflavíkur í dag aflýst vegna ástandsins.

Hluti strandaglópanna hefur fengið sæti um borð í annarri flugvél í fyrramálið. Aðrir farþegar hafa hvorki fengið nýtt flug né verið upplýstir um hvenær þeir komast heim.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda er á meðal Íslendinga sem staddur er á Kanaríeyjum. Hann sagði í samtali við fréttastofu í dag að fáir væru á ferli á Gran Canaria, enda væri lítið spennandi að vera úti þegar veðrið er svona. Enn væri hvasst, ryk og sandur í andrúmsloftinu og því best að halda sig innandyra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×