Erlent

Netanyahu hótar stríði á Gaza

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásirnar hafa verið á víxl en þær virðast hafa byrjað á því að hermenn skutu mann til bana við landamæragirðingu Gaza á sunnudaginn.
Árásirnar hafa verið á víxl en þær virðast hafa byrjað á því að hermenn skutu mann til bana við landamæragirðingu Gaza á sunnudaginn. AP/Khalil Hamra

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hótaði í dag stríði á Gaza-ströndinni ef eldflaugaárásir á Ísrael verði ekki stöðvaðar. Þrátt fyrir vopnahlé segir Aviv Kohavi, yfirmaður herafla Ísrael, að átökunum, sem staðið hafa yfir undanfarna tvo daga, sé mögulega ekki lokið enn.

Árásirnar hafa verið á víxl en þær virðast hafa byrjað á því að hermenn skutu mann til bana við landamæragirðingu Gaza á sunnudaginn. Herinn segir manninn hafa verið að koma fyrir sprengju og var lík hans sótt með jarðýtu.

Það olli mikilli reiði í Palestínu og var fjölda eldflauga skotið að Ísrael í kjölfarið, alls 26 samkvæmt yfirvöldum Ísrael. Þrettán þeirra voru skotnar niður af loftvarnarkerfi ríkisins.

Í gærkvöldi gerður Ísraelar svo loftárásir gegn PIJ í Sýrlandi, þar sem samtökin eru einnig virk. Her Ísrael segir árásirnar hafa beinst að stöð PIJ nærri Damascus þar sem unnið hafi verið að vopnaþróun og framleiðslu eldflaugaeldsneytis.

14 eldflaugum var svo skotið að Ísrael frá Gaza og svöruðu Ísraelar með loftárásum. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Sagði í dag að Hamas, sem stjórna Gaza, ættu að stöðva árásir PIJ, ellegar væru líkur á frekari átökum.

„Ef þið skjótið þá ekki, munum við skjóta ykkur. Ég er að tala um stríð,“ sagði Netanyahu í útvarpsviðtali í dag, samkvæmt frétt BBC. PIJ lýsti svo yfir einhliða vopnahléi og sögðu forsvarsmenn samtakanna að hefndaraðgerðum þeirra væri lokið.

Kohavi sagði í kvöld að óljóst væri hvort vopnahléið myndi halda. Það væri enn sem komið er mjög ótraust og að stríð hefðu hafist við svipaðar aðstæður á árum áður.

PIJ eru með sterkustu vígahópum Gaza og njóta þeir stuðningi Íran. Her Ísrael birti í dag tvö myndbönd um PIJ á Twitter í dag. Annað fjallar um eldflaugaárásirnar og hitt um samtökin sjálf.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.