Erlent

Ráðherra heilbrigðismála smitaðist sjálfur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Iraj Harirchi þótti veiklulegur á blaðamannafundi í gær. Enda kom á daginn að hann hafði sjálfur smitast af kórónaveirunni.
Iraj Harirchi þótti veiklulegur á blaðamannafundi í gær. Enda kom á daginn að hann hafði sjálfur smitast af kórónaveirunni. Getty/Anadolu Agency

Aðstoðarheilbrigðisráðherra Írans greindi frá því í dag að hann hefði sjálfur smitast af kórónaveirunni, sem veldur Covid-19. Hann sé þegar búinn að setja sig í sóttkví en segir sig þó nokkuð heilsuhraustan miðað við aðstæður. Hann greindi þjóð sinni frá veikindum sínum í myndbandi sem hann sendi frá sér í dag.

Útbreiðsla kórónaveirunnar í Íran hefur verið Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni mikið áhyggjuefni. Heildarfjöldi staðfestra smittilfella þar í landi er um 100 og andlátin þeim tengd fimmtán talsins. Þaðan hefur sjúkdómurinn jafnframt dreifst til Afganistans, Bareins, Kúveit og Ómans. Af þessum sökum hafa ýmis ríki í Austurlöndum nær brugðið á það ráð að takmarka mjög samgöngur til og frá Íran, jafnvel lokað landamærum sínum alfarið.

Fyrrnefndur aðstoðarheilbrigðisráðherra Íran, Iraj Harirchi, greindi síðan frá því í dag að hann hefði sjálfur smitast. Með því staðfesti hann það sem marga Írani hafði grunað, en ráðherrann hafði þótt veiklulegur á blaðamannafundi í gær.

„Mig langaði bara að tjá ykkur að ég er kominn með covid-19,“ sagði Harirchi á myndbandsupptökunni sem hann sendi frá sér. „Ég var með hita í gær og fékk staðfestingu á smiti í gærkvöldi. Þá einangraði ég mig,“ sagði ráðherrann og bætti við: „Ég mun núna hefja lyfjameðferð. Heilt yfir líður mér vel. Ég er reyndar svolítið þreyttur, ég var með hita en hann mun ganga niður.“

Ráðherrann nýtti jafnframt tækifærið í myndbandsupptökunni til að stappa stálinu í írönsku þjóðina. Stjórnvöld í Teheran ætli sér að ráða niðurlögum veirunnar. Nóg sé að lyfjum í landinu og íranska þjóðin ætti að hugsa til heilbrigðisstarfsfólks sem vinni óeigingjarnt starf.

„Þessi sjúkdómur fer ekki í manngreiningarálit, hann leggst jafnt á ríka og fátæka, embættismenn sem óbreytta borgara,“ segir Harirchi.

 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.