Erlent

Ráðherra heilbrigðismála smitaðist sjálfur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Iraj Harirchi þótti veiklulegur á blaðamannafundi í gær. Enda kom á daginn að hann hafði sjálfur smitast af kórónaveirunni.
Iraj Harirchi þótti veiklulegur á blaðamannafundi í gær. Enda kom á daginn að hann hafði sjálfur smitast af kórónaveirunni. Getty/Anadolu Agency

Aðstoðarheilbrigðisráðherra Írans greindi frá því í dag að hann hefði sjálfur smitast af kórónaveirunni, sem veldur Covid-19. Hann sé þegar búinn að setja sig í sóttkví en segir sig þó nokkuð heilsuhraustan miðað við aðstæður. Hann greindi þjóð sinni frá veikindum sínum í myndbandi sem hann sendi frá sér í dag.

Útbreiðsla kórónaveirunnar í Íran hefur verið Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni mikið áhyggjuefni. Heildarfjöldi staðfestra smittilfella þar í landi er um 100 og andlátin þeim tengd fimmtán talsins. Þaðan hefur sjúkdómurinn jafnframt dreifst til Afganistans, Bareins, Kúveit og Ómans. Af þessum sökum hafa ýmis ríki í Austurlöndum nær brugðið á það ráð að takmarka mjög samgöngur til og frá Íran, jafnvel lokað landamærum sínum alfarið.

Fyrrnefndur aðstoðarheilbrigðisráðherra Íran, Iraj Harirchi, greindi síðan frá því í dag að hann hefði sjálfur smitast. Með því staðfesti hann það sem marga Írani hafði grunað, en ráðherrann hafði þótt veiklulegur á blaðamannafundi í gær.

„Mig langaði bara að tjá ykkur að ég er kominn með covid-19,“ sagði Harirchi á myndbandsupptökunni sem hann sendi frá sér. „Ég var með hita í gær og fékk staðfestingu á smiti í gærkvöldi. Þá einangraði ég mig,“ sagði ráðherrann og bætti við: „Ég mun núna hefja lyfjameðferð. Heilt yfir líður mér vel. Ég er reyndar svolítið þreyttur, ég var með hita en hann mun ganga niður.“

Ráðherrann nýtti jafnframt tækifærið í myndbandsupptökunni til að stappa stálinu í írönsku þjóðina. Stjórnvöld í Teheran ætli sér að ráða niðurlögum veirunnar. Nóg sé að lyfjum í landinu og íranska þjóðin ætti að hugsa til heilbrigðisstarfsfólks sem vinni óeigingjarnt starf.

„Þessi sjúkdómur fer ekki í manngreiningarálit, hann leggst jafnt á ríka og fátæka, embættismenn sem óbreytta borgara,“ segir Harirchi.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×