Erlent

Fyrsta and­látið af völdum Wu­han-veirunnar utan Kína stað­fest

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Manila, höfuðborg Filippseyja.
Frá Manila, höfuðborg Filippseyja. Vísir/Getty

Karlmaður á fimmtugsaldri lést á Filippseyjum af völdum Wuhan-kórónaveirunnar svokölluðu. Andlát hans er það fyrsta af völdum veirunnar utan Kína, en þar á veiran uppruna sinn.

Maðurinn var kínverskur og var frá borginni Wuhan í Hubei héraði, borginni sem veiran er oft kennd við í daglegu tali. Talið er að hann hafi verið smitaður af veirunni áður en hann kom til Filippseyja, eftir því Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) kemst næst.

Hann kom til Filippseyja ásamt 38 ára gamalli kínverskri konu í síðustu viku, en konan er einnig sögð hafa greinst með veiruna. Þau voru lögð inn á spítala í höfuðborginni Manila. Maðurinn er þá sagður hafa þróað með sér alvarlega lungnabólgu. Fyrst um sinn hafi hann síðan sýnt stöðuga líðan og merki um bata, en ástand hans hafi varið hratt niður á við næsta sólarhringinn.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir Rabindra Abeyasinghe, fulltrúa WHO á Filippseyjum, að fólk yrði að halda ró sinni.

„Þetta er fyrsta dauðsfallið sem vitað er um utan Kína. Hins vegar verðum við að hafa í huga að maðurinn smitaðist ekki hér. Þessi sjúklingur kom frá hjarta faraldursins.“

Um 14 þúsund tilfelli veirunnar í fólki hafa verið staðfest og yfir 300 látist. Mörg ríki heimsins hafa nú gert ráðstafanir til þess að hefta útbreiðslu veirunnar. Rússland hefur þannig lokað landamærum sínum að Kína og Ástralía og Bandaríkin hafa bannað ferðalög erlendra ríkisborgara frá Kína, auk þess sem þeirra eigin borgarar skulu fara í sóttkví áður en þeim er hleypt inn í landið.

 


Tengdar fréttir

Vísa á bug orðrómum um að Ólympíuleikum verði aflýst vegna veirunnar

Skipuleggjendur Sumarólympíuleikanna 2020, sem fara fram í Tókýó í Japan í sumar, hafa séð sig knúna til þess að hafna opinberlega orðrómum um að útbreiðsla Wuhan-kórónaveirunnar í Asíu, og einkum og sér í lagi í nágrannaríkinu Kína, gæti orðið til þess að leikunum yrði aflýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×