Erlent

Kallar þingmenn snemma úr fríi vegna Póstsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. AP/Patrick Semansky

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur tekið þá ákvörðun að kalla þingmenn snemma heim úr sumarfríi til að greiða atkvæði um frumvarp um Póst Bandaríkjanna. Tilefnið er viðleitni ríkisstjórnar Donald Trump til að grafa undan Póstinum í aðdraganda forsetakosninga í nóvember, þar sem búist er við að milljónir muni greiða atkvæði í pósti.

Louis DeJoy, nýr yfirmaður Póstsins, hefur þegar skorið niður og gert miklar breytingar sem taldar eru muna koma niður á getu stofnunarinnar til að bregðast við kosningunum. Breytingarnar hafa þegar leitt til tafa á þjónustu Póstsins.

Sjá einnig: Póstmálastofnunin segir atkvæði ekki munu skila sér í tæka tíð

Í bréfi sem hún sendi þingmönnum í gær skrifaði Pelosi að á tímum faraldurs nýju kórónuveirunnar væri Pósturinn mjög mikilvægur vegna kosninganna. Líf og lýðræði Bandaríkjanna væri í húfi vegna aðgerða forsetans.

Búist er við að þingmenn muni koma saman aftur um næstu helgi og greiða atkvæði á laugardaginn, samkvæmt AP fréttaveitunni. Frumvarpinu sem um ræðir er ætlað að koma í veg fyrir að Trump geti gert breytingar á Póstinum og þingmenn Demókrataflokksins hafa þegar krafist þess að DeJoy mæti á nefndarfund þann 27. ágúst og svari spurningum þingmanna.

Háttsettir stjórnmálamenn í mörgum ríkjum Bandaríkjanna vinna nú hörðum höndum að því að gera kjósendum auðveldara að senda atkvæði sín í pósti til að reyna að sporna gegn útbreiðslu nýju kórónuveirunnar.

Heilt yfir hefur notkun póstatkvæða verið að aukast á undanförnum árum og hefur fjórðungur Bandaríkjamanna greitt atkvæði með þeim hætti í undanförnum þremur alríkiskosningum Bandaríkjanna.

Þá fara kosningar að mestu fram með póstatkvæðum í fimm ríkjum, Colorado, Hawaii, Oregon, Utah og Washington, og hafa gert um árabil.

Trump hefur lengi haldið því fram að umfangsmikil kosningasvindl sé fylgifiskur póstatkvæða. Hann hefur aldrei fært sannanir fyrir því og sérfræðingar segja það rangt.


Tengdar fréttir

Hótar Nevada lögsókn vegna póstatkvæða

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur heitið því að höfða mál vegna ákvörðunar ríkisþingmanna í Nevada, þar sem Demókratar eru í meirihluta, um að senda póstkjörseðla til kjósenda í ríkinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×