Erlent

Vilja nota Xbox stýripinna í skriðdrekum

Samúel Karl Ólason skrifar
XBOX Gaming Console
Getty/Sezgin Pancar

Ísraelskt fyrirtæki hefur smíðað frumgerð að nýjum skriðdreka sem stýra á með stýripinnum sem svipar verulega til hefðbundinna stýripinna Xbox leikjatölvanna. Upprunalega var skriðdrekinn framleiddur með hefðbundnum stýripinna eins og finnst í orrustuþotum en starfsmenn Israel Aerospace Industries unnu með táningum sem spila tölvuleiki að því hvernig betra væri að stýra skriðdrekanum og vopnabúnaði hans. Svarið var stýripinni Xbox.

Skriðdreki þessi ber nafnið Carmel og er ein þriggja frumgerða sem er til skoðunar í leit herafla Ísrael að nýrri kynslóð skriðdreka ríkisins.

Þær kynslóðir sem munu mögulega koma til með að stýra þessum skriðdrekum eru mun vanari stýripinnum eins og Xbox stýripinnunum í stað hinna hefðbundnu sem eru í raun áratugagömul tækni.

Í samtali við Washington Post sagði ofurstinn Udi Tzur að ótrúlegt væri hve fljótt ungir hermenn næðu tökum á því að stýra frumgerðinni. Hann sagðist ekki hafa trúað því hve hratt það gerðist. Hann sagði það eingöngu til komið vegna þess að ungt fólk er þegar verulega vant stýripinnum sem þessum

Umfjöllun WP um skriðdrekann hefst á því að séð utan frá virðist Carmel vera hefðbundinn skriðdreki. Þegar inn í hann er farið komi þó í ljós aðstæður sem svipi til herbergja táninga. Skriðdrekinn er þakinn skjám sem gera stjórnendum hans kleift að sjá umhverfi skriðdrekans í gegnum myndavélar sem eru víða á skrokki skriðdrekans.

Hér má sjá myndband frá tæknikynningu síðasta sumar þar sem sjá má frumgerð Carmel, eins og hún var þá.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tölvuleikir og hernaður fara saman með þessum hætti. Árið 2018 var sjónpípu kafbátsins USS Colorado breytt á þann hátt að Xbox stýripinni er nú notaður til að hækka og lækka hana. Árið 2014 var samskonar stýripinni notaður til að stýra geislavopni sem Boeing hefur þróað í tilraun.

Þá kom nýverið upp umdeilt atvik þar sem tölvuleikjateymi hers Bandaríkjanna var að streyma á Twitch. Áhorfendur sem ræddu stríðsglæpi Bandaríkjanna voru bannaðir frá streyminu, sem var sömuleiðis notað til að reyna að laða unga tölvuleikjaspilara að hernum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×