Íslenski boltinn

Kjartan: Blikar voru frábærir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kjartan Stefánsson segir að Fylkiskonur hafi misst dampinn á síðustu vikum eftir góða byrjun á tímabilinu.
Kjartan Stefánsson segir að Fylkiskonur hafi misst dampinn á síðustu vikum eftir góða byrjun á tímabilinu. vísir/bára

Kjartan Stefánsson, þjálfari Fylkis, sagði að Árbæingar hefðu mætt ofjörlum sínum þegar Breiðablik kom í heimsókn í kvöld. Blikar léku á alls oddi í fyrri hálfleik og skoruðu þá öll sín fjögur mörk.

„Blikar voru yfir í öllu og mikið betri en við í dag,“ sagði Kjartan í samtali við Vísi eftir leikinn á Würth-vellinum. Hann hefði viljað sjá sitt lið gera betur í leiknum, jafnvel þótt við ofurefli hefði verið að etja.

„Blikar voru frábærir í þessum leik. Við vorum kannski frá okkar besta. Það sem ég er ósáttastur með er hvað við fáum á okkur mörg mörk úr föstum leikatriðum. Við stóðum of langt frá og gáfum þeim of mikið svæði. Það eru kannski leiðindin í þessu. Svo sköpuðum við okkur ekki mikið.“

Staðan var 0-4 í hálfleik og úrslitin nánast ráðin. Fylkiskonur náðu þó að bjarga andlitinu í seinni hálfleik og héldu hreinu í honum.

„Við ætluðum a.m.k. að koma út á völlinn og vera þéttari og reyna að sækja að sama skapi. En klárlega þurftum við að svara og ekki tapa seinni hálfleiknum. Við ætluðum að gefa þeim leik hérna í kvöld en þær voru bara þetta góðar og tóku okkur,“ sagði Kjartan.

Fylkiskonur hafa ekki spilað vel í síðustu leikjum þótt fyrsta tapið hafi ekki komið fyrr en í kvöld.

„Ég hef ekki áhyggjur af þessu en við höfum misst taktinn. Kannski fórum við ekki vel út úr sóttkvínni og þurfum að svara því,“ sagði Kjartan en líkt og Breiðablik og KR þurfti Fylkir að fara í tveggja vikna sóttkví. Hún virðist hafa farið verst í Fylki af þessum þremur liðum.

Kjartan segir kærkomið að fá smá tíma til að anda núna en næsti leikur Fylkis er ekki fyrr en á fimmtudaginn í næstu viku.

„Við komumst loksins í frí. Þetta er bara endalaus endurheimt og undirbúningur fyrir leiki. Maður getur varla tekið alvöru æfingu,“ sagði Kjartan að lokum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.