Erlent

Breytt hegðun og ungt fólk að baki fjölgun smita

Kjartan Kjartansson skrifar
Glaðbeittir ferðamenn á Mallorca. Svæðisstjóri WHO í Evrópu segir að rekja megi fjölgun nýrra kórónuveirusmita til breyttrar hegðunar fólks og til þess að fleira ungt fólk smitast nú en fyrr í faraldrinum.
Glaðbeittir ferðamenn á Mallorca. Svæðisstjóri WHO í Evrópu segir að rekja megi fjölgun nýrra kórónuveirusmita til breyttrar hegðunar fólks og til þess að fleira ungt fólk smitast nú en fyrr í faraldrinum. AP/Joan Mateu

Ungt fólk er nú hærra hlutfall þeirra sem greinast með nýtt afbrigði kórónuveiru víða í Evrópu. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að breytt hegðun fólks sé orsök þess að hópsýkingar hafa komið upp og smitum fjölgað aftur að undanförnum.

Víða hafa Evrópuríki þurft að bakka með tilslakanir á sóttvarnaráðstöfunum sem gripið var til í kórónuveirufaraldrinum í vor vegna fjölgunar nýsmita. Íslensk stjórnvöld kanna nú möguleikann á að herða aftur á samkomubanni sem tók fyrst gildi í mars og stóð til að slaka á í byrjun ágúst.

Hans Kluge, svæðisstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) fyrir Evrópu, segir að tíðar smit á meðal ungs fólks eigi þátt í endurvakningu faraldursins í álfunni. Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC sagði hann að yfirvöld þurfi að koma skilaboðum sínum betur á framfæri við ungt fólk.

„Við höfum fengið tilkynningar frá nokkrum heilbrigðisyfirvöldum um hærra hlutfall nýrra smita á meðal ungs fólks. Fyrir mér er það ákall nógu hátt til að endurhugsa þurfi hvernig sé hægt að fá ungt fólk í lið með okkur,“ sagði Kluge.

Skiljanlegt væri að ungdómurinn vildi ekki missa af sumrinu en hann bæri engu að síður ábyrgð á sjálfum sér, foreldrum sínum, ömmum og öfum og samfélaginu.

„Við vitum núna hvernig við getum tekið upp góðar heilbrigðisvenjur svo notfærum okkur þá þekkingu,“ segir Kluge.


Tengdar fréttir

WHO um faraldurinn: Ein stór bylgja, engar árstíðarsveiflur

Nýtt afbrigði kórónuveiru hagar sér ekki eins og inflúensa sem tekur árstíðarsveiflur, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Fólk ætti að búa sig undir að faraldurinn verði aðeins ein stór bylgja.

Aldrei hafa fleiri greinst á einum sólarhring

Kórónuveirusmitum á heimsvísu hefur aldrei fjölgað jafn mikið og síðasta sólarhring, samkvæmt gögnum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Á 24 klukkustundum hafa 259.848 greinst með veiruna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×