Erlent

Aldrei hafa fleiri greinst á einum sólarhring

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Indverskur heilbrigðisstarfsmaður í hlífðarfatnaði býr sig undir að skima fólk fyrir Covid-19.
Indverskur heilbrigðisstarfsmaður í hlífðarfatnaði býr sig undir að skima fólk fyrir Covid-19. AP/Rafiq Maqbool

Kórónuveirusmitum á heimsvísu hefur aldrei fjölgað jafn mikið og síðasta sólarhring, samkvæmt gögnum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Á 24 klukkustundum hafa 259.848 greinst með veiruna.

Mesta aukningin varð í Bandaríkjunum, Brasilíu, á Indlandi og í Suður-Afríku. Ekki er langt síðan síðasta met var slegið, en það var síðastliðinn föstudag. Þá greindust 237.743 með veiruna á einum sólarhring. Í Bandaríkjunum voru ný tilfelli 71.848, 45.403 í Brasilíu, 34.884 á Indlandi og 13.373 í Suður-Afríku.

Þá hefur Covid-19, sjúkdómurinn sem kórónuveiran veldur, ekki dregið fleiri til dauða á einum sólarhring síðan 10. maí. Síðastliðinn sólarhring létust 7.360 manns af völdum veirunnar, samkvæmt gögnum frá WHO.

Meðaltal daglegra dauðsfalla vegna veirunnar á heimsvísu hefur verið um 4.800 í júlí. Í júnímánuði var meðaltalið skör lægra, eða um 4.600 dauðsföll.

Í gær urðu skráð tilfelli kórónuveirunnar frá upphafi faraldurs síðan fleiri en 14 milljónir. Á þeim sjö mánuðum sem faraldurinn hefur geisað, og víða sótt í sig veðrið, hafa um 600 þúsund látið lífið af völdum veirunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×