Erlent

Há­skóla­kennarinn fluttur í fangelsi úti í miðri írönsku eyði­mörkinni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Gilbert er sögð hafa verið fangelsuð í september 2018.
Gilbert er sögð hafa verið fangelsuð í september 2018. Twitter

Háskólakennarinn Kylie Moore-Gilbert sem var fangelsuð í Íran árið 2018 vegna ásakana um njósnir hefur verið flutt í fangelsi úti í miðri írönsku eyðimörkinni sem er þekkt vegna þess að þangað hafa pólitískir fangar jafnan verið fluttir og dúsað við slæman aðbúnað.

Moore-Gilbert afplánar nú 10 ára fangelsisdóm en hún er sökuð um að hafa stundað njósnir í Íran. Hún er lektor við háskólann í Melbourne í stjórnmálum Mið-Austurlanda en hún hefur setið í írönsku fangelsi frá því í september 2018. Hún hefur ítrekað neitað sök en réttarhöldin yfir henni fóru fram í leyni.

Áströlsk yfirvöld hafa lýst því yfir að Írönsk yfirvöld beri ábyrgð á heilsu og velferð Moore-Gilbert og hafa reynt að ná sambandi við hana án árangurs. Mál hennar er að sögn ástralskra yfirvalda í miklum forgangi hjá utanríkisráðuneyti landsins.

Sjá einnig: Ástralski háskólakennarinn sagður hafa verið yfir ár í einangrunarvist

Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Ástralíu sem birt var í gær segir að Íran hafi staðfest það að Moore-Gilbert hafi verið flutt í Qarchak fangelsið. Þangað eru pólitískir fangar iðulega fluttir og hafa fangar þaðan lýst aðstæðum í fangelsinu sem ömurlegum.

Hingað til hefur Moore-Gilbert verið haldið í Evin fangelsinu í Tehran, höfuðborg Íran, og að sögn vinar hennar hafði hún ekki einu sinni aðgang að bedda í klefanum sínum þar, hún hafi þurft að sofa á gólfi fangelsisins.

Þá hefur henni verið haldið í einangrun og hefur hún farið í nokkur hungurverkföll. Þá er hún sögð hafa sætt barsmíðum fyrir að hafa reynt að stappa stálinu í samfanga sína með því að skrifa til þeirra skilaboð annað hvort á veggi fangelsisins eða á bréfsnifsi.

Sjá einnig: Háskólakennarinn segist ítrekað hafa neitað að gerast njósnari fyrir Íran

Að sögn eiginmanns bresk-íranska góðgerðarstarfsmannsins Nazanin Zaghari-Ratcliffe – sem hefur setið í fangelsi í Íran frá 2016 vegna ásakana um njósnir sem hún hefur alltaf neitað – er Qarchak staður sem „írönsk yfirvöld senda kvenkyns pólitíska fanga þegar þau vilja brjóta þær niður.“

Hann segir að í fangelsinu sé ekkert hreint vatn, matur sé af skornum skammti, þar ráði gengi ríkjum sem leiði til þess að konurnar þurfi að bíða svo mánuðum skipti eftir að fá rúmpláss. Zaghari-Ratcliffe og Moore-Gilbert þekkjast en þær hafa farið saman í hungurverkföll.

Þá á Moore-Gilbert að hafa verið boðið frelsi, að hennar eigin sögn, gegn því vilyrði að hún myndi stunda njósnir fyrir Íran. Hún hafi afþakkað það boð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×