Enski boltinn

De Bruyne bestur ef rýnt er í tölfræðina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Belginn hefur verið frábær í liði City á tímabilinu.
Belginn hefur verið frábær í liði City á tímabilinu. EPA-EFE/Justin Tallis

Eftir að hafa verið mikið meiddur á síðustu leiktíð og byrjað aðeins 11 leiki í ensku úrvalsdeildinni þá átti Kevin De Bruyne, belgíski miðvallarleikmaður Manchester City, stórkostlegt tímabil.

Honum tókst reyndar ekki að tryggja City-liðinu sinn þriðja Englandsmeistaratitil á þremur árum en liðið varð undir í baráttunni við Liverpool sem – eins og frægt er orðið – vann loksins enskan meistaratitil eftir 30 ára bið.

Pep Guardiola – þjálfari City – getur þó ekki kennt De Bruyne um gengi síns liðs í vetur en Belginn átti hvern stórleikinn á fætur öðrum. City skoraði 102 mörk í 38 deildarleikjum og ljóst að sóknarleikur var ef til vill ekki höfuðverkur liðsins.

Af þessum 102 mörkum þá skoraði De Bruyne 13 af þeim ásamt því að leggja upp önnur 20 á samherja sína. Hann kom þar með að 32 prósent marka liðsins. Enginn leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar hefur lagt upp fleiri en 20 mörk á einni leiktíð og hefur aðeins einn leikmaður náð því áður. Thierry Henry, þáverandi leikmaður Arsenal, náði því snemma á þessari öld.

Raunar kom De Bruyne nánast að marki í leik en hann byrjaði 32 leiki fyrir City í deildinni og kom inn af varamannabekknum í tvígang.

Tölfræðisíðan WhoScored heldur utan um alla leiki ensku deildinni og þar kemur fram að enginn leikmaður deildarinnar bjó til jafn mörg opin marktækifæri fyrir samherja sína og De Bruyne eða 33 talsins.

Átti hann flestar lykilsendingar í opnum leik, það er ekki eftir föst leikatriði, eða 104 talsins. Einnig var hann tíu sinnum valinn maður leiksins hjá vefsíðunni og því völdu þeir hann sem leikmann ársins í ensku úrvalsdeildinni.

Meðaleinkunn De Bruyne var 7.97 en þar á eftir komu Sadio Mané með 7.45 og Mohamed Salah með 7.40. Þeir Raheem Sterling og Marcus Rashford komu þar á eftir, báðir með 7.40.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.