Íslenski boltinn

Allt annað að sjá Val nú en á sama tíma á síðustu leiktíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hannes Þór hefur átt töluvert betra tímabil í ár heldur en á síðustu leiktíð.
Hannes Þór hefur átt töluvert betra tímabil í ár heldur en á síðustu leiktíð. HAG/Daniel

Valur vann nokkuð þægilegan 3-1 sigur á nýliðum Fjölnis í 9. umferð Pepsi Max deildarinnar. Sigurinn þýðir að Valsmenn eru komnir á topp deildarinnar en á sama tíma á síðustu leiktíð voru þáverandi Íslandsmeistarar Vals í fallsæti deildarinnar.

Eftir níu umferðir á síðustu leiktíð voru Valsmenn með sjö stig. Liðið hafði skorað 15 mörk en fengið á sig 16 á móti. Í ár er allt annað upp á teningnum en liðið er á toppi deildarinnar með 21 stig eftir að hafa skorað 21 mark og fengið á sig átta. Helmingur markanna sem liðið hefur fengið á sig kom í óvæntu 4-1 tapi Vals á heimavelli gegn ÍA.

Þar fyrir utan hefur varnarleikur Vals verið nokkuð öruggur á leiktíðinni þó svo að Heimir Guðjónsson - þjálfari liðsins - hafi hringlað verulega í öftustu línu. 

Heimir tók við liði Vals í vetur og hóf tímabilið með Færeyinginn Magnus Egilsson og Orra Sigurð Ómarsson í vörn liðsins á meðan Sebastian Hedlund var á miðri miðjunni. Eftir leikinn gegn ÍA hafa þeir Magnus og Orri Sigurður sest á bekkinn. 

Valgeir Lunddal Friðriksson er kominn í vinstri bakvörðinn, Hedlund var færður  niður í miðvörð og Lasse Petry Andersen er kominn inn á miðja miðjuna. Síðan þá hefur Valur ekki litið til baka en liðið hefur unnið frábæra sigra á HK, Breiðabliki, Fylki og nú Fjölni í síðustu leikjum.

Þá er Hannes Þór Halldórsson að eiga töluvert betra tímabil en síðasta sumar. Landsliðs-markvörðurinn fékk mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína þá og virðist ætla að svara henni innan vallar í sumar.

Þá munar um komu Patrick Pedersen - sem var þó meiddur í gær - en hann kom ekki til félagsins fyrr en um mitt síðasta tímabil. Sóknarleikur liðsins er allt annar með Danann upp á topp og ljóst að Valsmenn eru til alls líklegir í sumar.


Tengdar fréttir

Ásmundur: Ingibergur átti auðvitað ekki að gera þetta

„Við höfum mætt ýmiss konar mótlæti,“ segir Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, eftir að liðið tapaði enn einum heimaleik sínum í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld, 3-1 gegn Val sem komst á toppinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×