Umfjöllun og viðtöl: KR - Fjölnir 2-2 | Meistararnir misstigu sig gegn botnliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR-ingar fagna marki.
KR-ingar fagna marki. vísir/bára

Botnlið Fjölnis gerði góða ferð í Frostaskjólið og náði 2-2 jafntefli við Íslandsmeistara KR í 8. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld.

Pálmi Rafn Pálmason og Atli Sigurjónsson skoruðu mörk KR-inga sem voru búnir að vinna fjóra leiki í röð fyrir leikinn í kvöld. Þeir eru með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar.

Jóhann Árni Gunnarsson og Ingibergur Kort Sigurðarson skoruðu fyrir Fjölnismenn sem bíða enn eftir sínum fyrsta sigri á tímabilinu. Þeir geta þó tekið margt jákvætt út úr leik kvöldsins sem var þeirra besti á tímabilinu.

Fjölnismenn voru sprækir í upphafi leiks á meðan KR-ingar voru hálf værukærir. Þeir komust þó nálægt því að skora á 11. mínútu þegar boltinn fór af Pálma Rafni og í slána eftir hornspyrnu.

Á 17. mínútu náðu gestirnir úr Grafarvogi forystunni með einkar laglegu marki. Guðmundur Karl Guðmundsson sendi boltann upp í hægra hornið á Örvar Eggertsson sem átti fyrirgjöf á Jóhann Árna sem skoraði.

Forystan entist aðeins í þrjár mínútur. Á 20. mínútu jafnaði Pálmi Rafn með skoti af stuttu færi eftir að Atli Gunnar sló hornspyrnu Atla burt.

Eftir þetta einokuðu KR-ingar boltann á meðan Fjölnismenn beittu skyndisóknum. Viktor Andri Hafþórsson og Orri Þórhallsson fengu ágætis færi eftir tvær slíkar sem ekki nýttust.

Alex Freyr Hilmarsson komst næst því að koma KR yfir á 31. mínútu en skot hans fyrir utan vítateig fór rétt framhjá. Staðan í hálfleik var jöfn, 1-1.

Í seinni hálfleik jók KR pressuna og hélt Fjölni í gíslingu á þeirra eigin vallarhelmingi. Á 59. mínútu átti Óskar Örn hörkuskalla eftir hornspyrnu Atla en Atli Gunnar varði. 

Þremur mínútum seinna snerust hlutverkin við. Óskar Örn átti fyrirgjöf á Atla sem kastaði sér fram og skoraði með skalla.

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, gerði tvöfalda skiptingu strax eftir markið. Og hún var ekki lengi að bera ávöxt.

Á 64. mínútu sendi Hallvarðar Óskar Sigurðsson fyrir frá vinstri á hinn varamanninn, Ingiberg, sem setti boltann í netið með bringunni og skoraði sitt fyrsta mark í sumar.

KR hélt áfram að sækja en Fjölnir átti stórhættulegar skyndisóknir sem voru hársbreidd frá því að skila sigurmarki. Á 81. mínútu komst Ingibergur í úrvalsfæri eftir laglegan einleik en Kennie Chopart bjargaði á síðustu stundu.

Sex mínútum síðar átti Hallvarður svo skot í stöng af stuttu færi eftir undirbúning Jóhanns Árna. Í uppbótartíma skall einu sinni hurð nærri hælum í vítateig Fjölnis eftir hornspyrnu Kennies en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 2-2 í hörkuleik.

Af hverju varð jafntefli?

Eins og við mátti búast var KR miklu meira með boltann og sókn meistaranna var á löngum köflum afar þung. En Fjölnir varðist með kjafti og klóm og fékk yfirhöfuð betri færi. Grafarvogspiltar hafa átt í vandræðum með að skora í sumar en þær fáu sóknir sem þeir fengu í leiknum í kvöld voru vel útfærðar og beittar. 

Hverjir stóðu upp úr?

Atli var virkilega góður á hægri kantinum hjá KR og skoraði frábært mark. Samvinna þeirra og Kennies var til fyrirmyndar og KR-ingar voru ógnandi hægra megin. Óskar Örn átti ágæta spretti og lagði upp annað markið fyrir Atla.

Viktor Andri og Orri voru sprækir í fyrri hálfleik og í þeim seinni komu Ingibergur Kort og Hallvarður inn á með mikinn kraft. Þeir bjuggu til jöfnunarmarkið og fengu svo báðir dauðafæri til að tryggja Fjölni sigurinn. Þá sýndi Jóhann Árni á köflum hversu góður hann er.

Ungverski miðvörðurinn Peter Zachan átti svo sinn besta leik síðan hann kom til Fjölnis. Hann hafði nóg að gera í vörn gestanna en komst vel frá sínu.

Hvað gekk illa?

Í fjarveru Kristins Jónssonar þurfti Pablo Punyed, markahæsti leikmaður KR á tímabilinu, að leysa stöðu vinstri bakvarðar. KR-ingar söknuðu ekki bara Kristins heldur einnig að hafa Pablo ekki á miðjunni. Kristján Flóki Finnbogason náði sér engan veginn á strik í fremstu víglínu KR og Aron Bjarki Jósepsson átti í erfiðleikum í vörninni.

Atli Gunnar var langt frá því að vera sannfærandi í marki Fjölnis í fyrri hálfleik en var betri í þeim seinni.

Hvað gerist næst?

Á sunnudaginn fara KR-ingar til Akureyrar og mæta þar KA-mönnum. Degi síðar fær Fjölnir Val í heimsókn. KR og Fjölnir mætast svo aftur í sextán liða úrslitum Mjólkurbikars karla 30. júlí.

Rúnar: Ósáttir við þetta eina stig

Rúnar hrósaði Fjölnismönnum og sagði þá hafa gert sínum mönnum erfitt fyrir.vísir/bára

„Það eru smá vonbrigði að hafa ekki fengið þrjú stig,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir 2-2 jafnteflið við Fjölni í kvöld.

„Við vorum kannski ekki nógu beittir í fyrri hálfleik en vorum mun betri í þeim seinni og herjuðum á þá. En svona er þetta bara. Við nýttum ekki færin okkar og spiluðum ekki nógu vel í fyrri hálfleik en sá seinni var fínn.“

KR náði forystunni, 2-1, á 62. mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Fjölnir. Dæmið snerist þá við frá því í fyrri hálfleik en þá jöfnuðu KR-ingar þremur mínútum eftir að Fjölnismenn komust yfir.

„Það var svekkjandi en það er hægt að segja það sama um Fjölni. Ég var ósáttur við það. Við héldum að við værum í það góðum gír á þessu augnabliki að við næðum að loka þessum leik og jafnvel skora fleiri mörk,“ sagði Rúnar.

„Það er lítið hægt að gera núna til að breyta því. Við erum ósáttir við þetta eina stig, hefðum viljað þrjú, en verðum kannski að sætta okkur við það.“

Rúnar segir að Fjölnismenn hefðu gert KR-ingum erfitt fyrir, sérstaklega í fyrri háfleik.

„Það er mjög erfitt að spila á móti liði sem liggur svona rosalega aftarlega. Þeir gerðu það ofboðslega vel og gerðu okkur erfitt fyrir. Við áttum í smá vandræðum með að finna leiðir í gegn. En við vorum þolinmóðir og fundum leiðirnar smátt og smátt,“ sagði Rúnar.

„Þegar leið á leikinn fundum við fullt af möguleikum til að opna þá. En á sama tíma eru þeir fljótir fram á við og stórhættulegir þannig að við þurftum líka að passa okkur á því að fara ekki með alltof marga menn fram. Mér fannst við leysa þetta vel en er ósáttur með að við skyldum ekki vinna.“

Ásmundur: Hefði verið ljúft að sjá boltann fara í stöngina og inn

Ásmundur kvaðst stoltur af sínum mönnum eftir leikinn á Meistaravöllum.vísir/stöð 2 sport

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, var ánægður með frammistöðu sinna manna gegn Íslandsmeisturum KR í kvöld.

„Ég er stoltur af strákunum. Þeir lögðu allt í þetta, við vorum vel skipulagðir og skoruðum tvö mörk. Við getum alveg verið þokkalega sáttir með eitt stig hér þótt maður vilji alltaf taka öll þrjú. Það hefði verið ljúft að sjá boltann fara í stöngina og inn en ekki stöngina og út undir lokin,“ sagði Ásmundur og vísaði til þess þegar Hallvarður Óskar Sigurðsson skaut í stöng þremur mínútum fyrir leikslok.

KR var miklu meira með boltann og þjarmaði að Fjölni á löngum köflum. En gestirnir beittu hættulegum skyndisóknum sem skiluðu tveimur mörkum og nokkrum færum til viðbótar.

„Við missum að það myndi liggja svolítið á okkur. En við vorum alltaf líklegir og hættulegir og heilt yfir gekk þetta nokkurn veginn eins og við lögðum upp með,“ sagði Ásmundur.

Eftir annað mark KR á 62. mínútu gerði Ásmundur tvöfalda skiptingu og setti Ingiberg Kort Sigurðsson og Hallvarð Óskar Sigurðsson inn á fyrir Viktor Andra Hafþórsson og Orra Þórhallsson. Tveimur mínútum síðar skoraði Ingibergur eftir sendingu Hallvarðar.

„Skiptingin gekk fullkomlega upp,“ sagði Ásmundur og brosti. „Halli lagði upp á Inga. Þeir komu báðir ferskir inn á. Þetta eru mikil hlaup og við vissum að við þyrftum ferskar lappir þegar líða færi á leikinn.“

Fjölnir á enn eftir að vinna leik í Pepsi Max-deildinni í sumar en miðað við frammistöðuna í kvöld en styttra í hann en lengra.

„Ég ætla að vona að menn taki sjálfstraust með sér inn í næstu leiki. Við erum með þéttan og fínan hóp og það er samkeppni um allar stöður. Ef menn halda áfram þeirri frammistöðu sem þeir hafa sýnt í flestum leikjum dettur sigurinn inn,“ sagði Ásmundur að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira