Enski boltinn

Segir að Pear­son hafi ekki gengið í skrokk á neinum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Troy Deeney er fyrirliði Watford sem er rær lífróður í ensku úrvalsdeildinni.
Troy Deeney er fyrirliði Watford sem er rær lífróður í ensku úrvalsdeildinni. vísir/getty

Troy Deeney, fyrirliði Watford, blæs á sögusagnir um að handalögmál hafi átt sér stað í búningsklefa Watford í hálfleik er liðið mætti West Ham á föstudaginn.

Watford tapaði leiknum 3-1 og sögusagnir bárust af því að Nigel Pearson, þáverandi stjóri liðsins, hafi látið leikmennina heldur betur heyra það og rúmlega það í leikhléinu.

Hann hafi gengið það langt að hann hafi slegist við einhverja leikmenn liðsins en Deeney segir það algjört bull.

„Stjórinn lagði ekki hendur á neinn. Hann var svekktur og var heitur er hann talaði við okkur,“ sagði Deeney.

„Enginn var að slást, enginn var laminn. Það voru engin handalögmál.“

Á sunnudaginn kom það svo í ljós að Watford væri búið að reka Pearson úr starfi og er hann því þriðji þjálfarinn sem fær rauða spjaldið frá Watford á leiktíðinni.

„Þú kemur að þeim tímapunkti í fótboltanum þar sem þú ert ekki hissa lengur en ég myndi þó segja að þetta hafi kom mér á óvart og skellti mér niður á jörðina.“

Einnig bárust sögusagnir af því að fyrirliðinn Deeney vildi velja hverjir myndu spila en það segir hann einnig að sé algjör þvæla.

„Troy [Deeney] mun ekki velja liðið því ég hef einnig lesið það. Ég er víst spilandi þjálfari.“

Unglingaþjálfarinn Hayden Mullins og markmannsþjálfarinn Graham Stack munu stýra Watford í síðustu tveimur leikjunum en þeir mæta City á útivelli í kvöld áður en Arsenal bíður í lokaumferðinni um helgina.

„Við þurfum að virða þessa ákvörðun og leggja allt okkar traust á Hayden og Stacky sem eru góðir menn.“

Watford er þremur stigum á undan Aston Villa, sem er í fallsæti, og geta þar af leiðandi fellt Villa í kvöld, nái þeir stigi gegn City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×