Enski boltinn

Lagði upp sigur­­markið, fékk hrós frá fyrrum leik­manni en staðar­blaðið gaf honum „bara“ sex í ein­kunn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi með boltann í leiknum í gær.
Gylfi með boltann í leiknum í gær. vísir/getty

Gylfi Þór Sigurðsson var með fyrirliðabandið hjá Everton í gær er liðið vann 0-1 útisigur á spútnikliði og nýliðum Sheffield United í næst síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Gylfi hefur verið að spila mikið sem aftasti miðjumaður hjá Everton og hefur þurft að sinna miklu varnarhlutverki en í gær fékk Hafnfirðingurinn frjálsari rullu. Það skilaði stoðsendingu í sigurmarkinu sem Richarlison skoraði á 46. mínútu.

Yannick Bolasie, sem var samherji Gylfa hjá Everton en er nú lánaður til Sporting, hrósaði Gylfa fyrir frammistöðu sína í gær og sagði að „Sigiii“ hafi átt virkilega góða frammistöðu í gær.

Það dugar þó „bara“ til sex í einkunn hjá staðarblaðinu Liverpool Echo en í umsögninni um Gylfa segir.

„Tók aukaspyrnuna á Richarlison sem braut lásinn. Spilaði í sinni uppáhaldsstöðu, tíunni, er Ancelotti breytti taktíkinni. Kom sér í góðar stöður í síðari hálfleik og reyndi án þess að verða mjög hættulegur.“

Gylfi er einn fimm leikmanna sem fengu sex í einkunn en fimm aðrir fengu sjö í einkunn. Lægstur var Dominic Calvert-Lewin sem fékk fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×